Mánudagur 26. mars 2012

Í gær gleymdist: Siggi fékk fjórðu tönnina! (Og fer þá kannski að sofa aftur á næturnar, plísplísplís.) Í dag lærði ég á kaffihúsi, þangað sem Maggi og Siggi kíkja stundum í heimsókn og dást að fallega veggfóðrinu.

Siggi, ekki að sýna ykkur nýju tönnina

Siggi, ekki að sýna ykkur nýju tönnina

Sunnudagur 25. mars 2012

Í dag var Vöffludagur haldinn hátíðlegur í Svíþjóð. Það hefðum við ekki vitað hefðu Begga og Ingó ekki boðið okkur í dýrindis vöfflukaffi. Við vorum hinsvegar svo upptekin við að háma í okkur vöfflur að myndavélin gleymdist í töskunni sinni.

Bangsi + tvöfalt límband = kortér sem Unnur var alls ekki að skrifa ritgerð

Bangsi + tvöfalt límband = kortér sem Unnur var alls ekki að skrifa ritgerð

Sunnudagur 26. febrúar 2012

Í dag fengum við grun okkar staðfestan: Sundlaugar í Svíþjóð eru ómögulega kaldar og fullar af hoppandi og buslandi smáSvíum. Það var hinsvegar fallegur veðurdagur og bara gaman að dandalast um borgina í sólinni með forvitinn Sigurð í kerru.

Maggi sólar sig í strætóskýli. (Hann gleymdi að raka sig þennan morgun.)

Maggi sólar sig í strætóskýli. (Hann gleymdi að raka sig þennan morgun.)

Fimmtudagur 23. febrúar 2012

Í dag var ég að heiman frá átta til hálfsex, og það er ömurlegt að vera svona lengi í burtu. Ég er komin í almennilegt samband við leiðbeinendurna og þau virðast ótrúlega elskuleg og hjálpsöm, og það er allt á réttri leið, en þau eru bara með svo margar tennur. Og finnst ekkert fyndið þegar ég fel mig bakvið skýrslu og birtist svo skyndilega ýlandi aftur. Svo það var ægilega gott að koma heim og knúsa Sigurð, og náttúrulega Magga (sem sýnir alltaf þá kurteisi að brosa þegar ég birtist ýlandi aftur). Þeir höfðu hinsvegar greinilega átt fullkomlega ágætan feðgadag saman.

Fullkomlega ágætir feðgar

Fullkomlega ágætir feðgar

Föstudagur 17. febrúar 2012

Maggi vaknaði skjálfandi í morgun og skrækti að hann þyrfti panodil hot. Við Siggi innsigluðum pestargemlinginn inni í svefnherbergi og fórum fram að bralla. Uppúr hádegi skreið maðurinn á fætur og lýsti sig nógu hressan til að ráða við afkvæmið meðan ég skryppi í svefnpoka- og matarstólsinnkaupaleiðangur. Ég var fjóra tíma að taka alls fjóra strætóa, og fara í tvær búðir, og leið eins og ég hefði bjargað mannkyninu. Eins og mér finnst gaman að fara stelpuferðir í Ikea og barnabúðir þá er mannskemmandi að gera þetta einn. Sjálfsvorkunn lokið. Siggi er alsæll með stólinn sinn, en samt hálffúll í allan dag yfir því að þurfa stundum að dunda sér sjálfur, enda töluvert færri hendur í boði en áður til að taka hann upp. Held hann sakni ammanna og afanna á Íslandi.

Mæðgin skítamixa liggja-á-bakinu æfinguna, Sigga finnst hún pein.

Mæðgin skítamixa liggja-á-bakinu æfinguna, Sigga finnst hún pein.

"Að þið skulið láta þetta viðgangast. Hvað ef ég dett?? Óábyrga pakk."

"Að þið skulið láta þetta viðgangast. Hvað ef ég dett?? Óábyrga pakk."

"Huh?"

"Huh?"

 

Sund-Siggi

Sund-Siggi

Sunnudagur 4. desember 2011

Í dag fórum við mamma í Stockholm Quality Outlet í Barkarby og keyptum alveg heilan helling af jólagjöfum. Skynsamir Svíar versla greinilega þarna því það var stappað af fólki, en það jók eiginlega bara á jólastemmninguna. Hvar er meiri jólastemmning en í góðri sænskri röð? Myndavélin var ekki með í för, sem er miður því á staðnum var þessi líka myndarlega jólageit sem mamma var æst í að setjast á.

Maggi og Siggi voru mjög sorgmæddir að fá ekki að fara með að versla, ég held að sá eldri sé enn að jafna sig.

Fimmtudagur 1. desember 2011

Í morgun fórum við Siggi úfin á fætur eitthvað að bralla, og það var ekki fyrr en klukkan hálfníu sem ég kíkti á stundaskrána mína og sá að ég átti að mæta níu en ekki tíu. Úps. Maggi var vakinn með “MAGGI!! ÉROFSEIN ÓMÆGAD VAKNAÐUGRÍPTU” og svo flaug Siggi af stað. Maggi er sem betur fer fljótur að hugsa. Ótrúlega þá varð ég ekki nema tíu mínútum of sein í skólann, en þá var ég líka búin að hlaupa tvo og hálfan kílómetra úr lestinni og bæði sveitt og móð þegar ég reif upp hurðina á stofunni svo dramatískt að allir þögnuðu og litu við.

Seinnipartinn fórum við að skoða miðstöð Rauða krossins fyrir flóttamenn sem hafa orðið fyrir pyntingum. Hún er stödd í stóru og háu húsi á Södermalm og ég var svo mikið að spjalla þegar við vorum leidd um húsið að miðstöðinni að ég tók ekkert eftir því hvernig við komumst þangað. Svo var heimsóknin búin og allir fóru heim, nema ég því ég þurfti að pissa. Þegar ég ætlaði að fara og kom út á stigagang, þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að komast út. Ég vildi ekki íþyngja pyntingafórnarlömbum með klípunni, svo ég ákvað að leita bara að útganginum sjálf. Ég var á þriðju hæð, þá var mjög lógískt að labba bara niður á neðstu hæð og voilà. Nema á neðstu hæðinni var ekkert nema völundarhús af læstum hurðum og ekki sálu að sjá, hvað þá útidyrahurð. Skrýtið að merkja hæð 1 og hafa engan útgang þar, en ókey, þá hlýtur að vera hægt að komast út á hæð 2. Nema þar var sama sagan, allt risastórt en tómt og læst og hvorki gluggi né útgangur í augsýn. Mér stóð orðið ekki á sama. Eftir margar (maaargar) ferðir milli tveggja neðstu hæðanna fann ég loksins lyftu og fór inn í hana. Þá gat ég valið milli hæða 1-4 og við 4 stóð entré. Þá höfðum við í byrjum heimsóknar labbað NIÐUR stigann en ekki upp án þess að blaðrarinn ég tæki eftir því, og ég búin að vera að álpast í misdjúpum kjöllurum að leita að útganginum. Ég skammaðist mín ögn og skottaðist heim. (En samt í alvöru, hvað er með að nefna hæðirnar ekki -1, -2 osfrv ef þær eru í kjallara?? Á ekki inngangur að vera á hæð E, 0, eða 1? Inngangur á fjórðu hæð er bara kvikindislegur, sérstaklega í stigagangi þar sem gengur um fólk sem hefur orðið fyrir áfalli eins og pyntingum. Það er bara heppilegt hvað ég er í frábæru jafnvægi.)

Siggi átti betri dag og hélt í fyrsta sinn sjálfur á pelanum sínum meðan hann drakk. Hann borðaði meira avókadó í kvöldmat og drakk vatn úr glasi.

Miðvikudagur 30. nóvember 2011

Siggi vill endalaust naga böndin á manduca-pokanum, og í staðinn fyrir að vera endalaust að taka þau útúr honum þá pimpuðum við pokann upp með uglu-nagiútbúnaði. Tada! Nagaðu að vild litli maður.

Gula uglan er best. Hún er sítrónu.

Gula uglan er best. Hún er sítrónu.

Þriðjudagur 29. nóvember 2011

Í kvöld fengum við frábæra þjónustu, Arnar og Íris birtust hér með þríréttaða máltíð, og Sigurjón með snarl og drykki, og svo sátum við Maggi bara í sófanum heima hjá okkur á meðan gestirnir elduðu og gerðu og græjuðu. Í aðalrétt var SS-pulsuveisla, en tilefnið var að nú þurfum við því miður að sjá á eftir Sigurjóni aftur heim til Íslands. Þá verður væntanlega ekki hægt að halda fleiri Idol-kvöld því Sigurjón er sá eini sem hefur vit á söng í hópnum, án hans vöðum við bara í villu og svíma (hann var upptekinn síðasta föstudag sem varð til þess að við ákváðum málefnalega að “þessi feita” ætti að fara heim úr Idolinu).

Siggi fékk líka veislumáltíð, hann smakkaði avókadó í fyrsta sinn og var alveg sæmilega sáttur við sinn hlut. Enda var rökkur og barnið sá ekki almennilega hvernig jukkið var á litinn.

avókadónom

avókadónom