Dagur 15

Campus svæðið er yndislegt, enda stendur skólinn í miðjum þjóðgarði. Grænt í allar áttir, stutt í stöðuvatn (Laduviken) í austur og sjóinn í vestur (Brunnsviken). Stærðarinnar tignarleg tré – og litlar tjaldbúðir þar sem alþjóðlegir stúdentar sem ekki hafa fundið húsnæði enn sem komið er búa í kúlutjöldum. Sönn saga. Get svo svarið það. Þarf að taka myndir af þessu og skella þeim hingað inn.
Svo virðist vera sem ástandið hafi aldrei verið svona slæmt áður hvað varðar húsnæðisskort fyrir nemendur, og prísum við okkur sæl yfir því að hafa fundið svona yndislega íbúð.

Útsýni af bókasafninu

Útsýni af bókasafninu

Höfum eytt þónokkrum tíma á háskólabókasafninu síðustu daga og erum afskaplega hrifin af því. Lesbásar, vinnuherbergi, hægindastólar, stórir gluggar sem vísa út í litlar garð-einingar eða út á campusinn sjálfan. Sjáum fram á að þar verði afskaplega huggulegt að stúdera með góðum kaffibolla í vetur. Hreint ekki slæmt.

Dagur 14

Spínatdrykkur til að skerpa einbeitinguna í morgunsárið, og svo var stokkið af stað mót fyrsta skóladeginum. Ég skellti mér í kynningu á prógramminu mínu, á meðan Maggi fór samviskusamlega í vitlausan fyrirlestur, sakleysinginn. Hann var reyndar fljótur að kveikja, en ekki fyrr en hann var búinn að panika vandlega yfir því hvað hann væri mikið eldri en allir hinir.

Svo var lesið á bókasafninu það sem eftir lifði skóladagsins, það fékk mjög háa einkunn hjá bókaormunum hvað varðar kósíheit og þar verður sennilega hægt að finna okkur að miklu leyti næstu mánuðina.

Mikilvægasta verkefni dagsins: Að velja okkur líkamsræktarstöð. Við erum búin að brjóta heilann um þetta síðan við komum fyrir hálfum mánuði, og í kvöld var kominn tími til að taka ákvörðun. Aðeins of margt í boði. Ég þjáðist af svo miklum valkvíða, og biturleika yfir því að það væri hvergi hlaupahópur, að á endanum varð Maggi að taka af skarið og ákveða þetta. Fyrir valinu varð SATS, og við erum voða glöð.

Á morgun: Alvöru skóli, og eitthvað sem deildin mín kallar “social gathering” í eldhúsinu í skólanum (ætti ég að segja þeim að ég sé í sambandi?).

Dagur 13

Eftir að hafa látið sænskan hárskera snyrta á mér lubbann í morgun (í tilefni fyrsta skóladagsins í fyrramálið) var haldið í verslunarleiðangur í lágvöruverðsmarkaðinn Lidl. Þar kom innkaupakerran okkar úr IKEA sér sérlega vel. Nei, við stálum ekki innkaupavagni í IKEA móðurskipinu, heldur keyptum okkur litla handhæga kerru (ætlaða eldri borgurum og fátækum námsmönnum) sem er tilvalin til að ferja heim merkilega mikið magn af matvörum.

Fundum þykjustunni-Bounty í Lidl, erum að prufukeyra það núna. Kemur vel út, Unnur vill meina að það sé betri en gamla góða, Magnús er ekki sannfærður (þótt hann ætli að prufa það örlítið meira til að vera viss).

Gamla Stan

Gamla Stan, séð frá StikkiNikki pulsuvagninum

Haustið er greinilega rétt handan við hornið og er að gægjast fyrir það virðist vera, því við finnum mikinn mun á hitastigi dagsins frá því við komum til fyrirheitna landsins. Merkilegt nokk eru það að verða heilar tvær vikur síðan við lentum, þótt það virðist á stundum vera mun lengra síðan. Tíminn virðist líða á öðrum hraða í Svíþjóð en á Íslandi.

“Ú ú ú, það stendur eitthvað á þessu skilti!” – Unnur Margrét í Svíþjóð

Dagur 12

Maggi var ennþá sloj þegar við vöknuðum í morgun, en ákvað samt að bíta á jaxlinn og drífa sig með í verslunarleiðangurinn sem var á dagsplaninu. Harpa var með bíl í láni, og bauðst til að taka okkur með í Ikea, Bauhaus og Jysk (Rúmfatalagerinn). Algjör forréttindi og fara þannig ferð á bíl en ekki í strætó og lest, svo við þáðum boðið með þökkum. Eftir tvo tíma í troðnu Ikea var kvefaði maðurinn greinilega farinn að sjá eftir því að hafa látið hafa sig út í þetta, en þá var of seint að hætta við. Svo í Bauhaus og Jysk tók hann bara beint strik á næsta sýningarsófa, og prófaði hann svo af einbeitingu meðan við Harpa hrúguðum til hans öllu góssinu. Mjög gott og skilvirkt kerfi.

Við borðuðum að sjálfsögðu kjötbollur í Ikea (alveg eins og á Íslandi!) og í sama hverfi og þessar búðir voru sáum við stórt fata-outlet, og ýmislegt sem þarfnast frekari athugunar við tækifæri. Við vorum hinsvegar svo þreytt í sálinni þegar heim kom að við gerðum ekkert fleira það sem eftir lifði dags. Nú sit ég og horfi á draslið sem við hrúguðum heim. Ég held það muni dúsa í pokunum ansi lengi.

Á morgun: Versla í matinn, elda nestis-súpu, lesa fyrir fyrsta fyrirlesturinn, ganga frá drasli, snýta Magga…

Dagur 11

Mikil skelfing greip mig þegar ég sá lánaáætlunina hjá LÍN í morgun, þar til ég las hana yfir aðeins betur og rak augun í að allar upphæðir væru í Sænskum krónum en ekki Íslenskum. Hjartaáfalli afstýrt, sem betur fer.

SEK / ISK

Sænska krónan, bjargvætturinn mikli.

Dagur 2 í baráttunni við Svíaflensuna, hún er skæð en mér virðist vera að takast að ráða niðurlögum hennar. Hefði eftir á að hyggja betur látið bólusetja mig fyrir henni á sama tíma og ég fékk bólusetningu fyrir Svínaflensunni. Getur ekki hafa verið mikið aukalegt vesen, mér hefði eflaust verið boðið upp á hana hefði ég gloprað því út úr mér að ég væri á leiðnni hingað í nám.

Svíaflensufaraldurinn mikli

Svíaflensufaraldurinn mikli á mbl.is

Skólinn hefst í næstu viku, mikil eftirvænting ríkir á heimilinu.

Dagur 10

Í dag ætluðum við í skoðunarferð sem var boðið uppá um skólasvæðið, og í Ikea. En þá varð Magga kalt, og það veit aldrei á gott. Svo hann var settur í náttbuxur, pakkað inn í teppi, og plantað í sófann:

Lasinpési

Maggi að taka veikindunum af æðruleysi

Það var hinsvegar allt í lagi að stranda heima í dag, þar sem dótið okkar sem fór sjóleiðina kom í morgun. Við erum búin að ganga frá sirka helmingnum, og strax farin að sjá eftir að hafa tekið svona mikið með. Næstu gestir sem koma verða sendir með allskonar drasl heim (hélt ég að fyrst ég væri ekki búin að nota línuskautana mína síðan 1997 að þá væri nú aldeilis kominn tími á það núna?). Við komumst svo að því hvaðan indæli leigusalinn fær yndislegheitin þegar pabbi hennar mætti á svæðið til að laga sturtuna okkar (sem sprakk í gær (note to self: það er ekki hægt að laga sturtur með kassateipi)). Við erum búin að hefja ættleiðingarferlið, og vonumst til að hann verði orðinn formlegur hluti af fjölskyldunni okkar seinna í vetur.

Það var eins og Stokkhólmur hafi fundið á sér að Maggi væri lasinn, því um miðjan dag hljómaði fallegt lítið lag á bílaplaninu okkar. Við litum út og sáum:

ísbíll

Vúts!

ÍSBÍLINN!!!

Dagur 9

Vorum að lenda í Kistunni eftir viðburðaríkan dag. Það var kynningardagur fyrir meistaranema í háskólanum, svo við eyddum deginum þar við að blaka eyrunum og ná áttum. Í kvöld var svo bjórkvöld til að hrista liðið saman, og við vorum ákveðin í að mæta og kynnast fólki. Þegar á hólminn var komið nenntum við ómögulega af stað, komin heim og allt voða kósí og fínt. En við náðum nú samt að virkja sjálfsagann og drattast af stað á endanum. Við komum inn í partýið og það fyrsta sem við hugsuðum var “I’m too old for this sh**”. Svo við drukkum bjór. Verandi tvö saman þá vorum við sennilega frekar óárennileg, en á endanum ákváðum við bara að velja einhvern sem virtist vera einn og hafa villst frá hjörðinni sinni, og LÁTA hann vera vin okkar. Fyrir valinu varð þessi líka fíni Kínverji. Við spjölluðum við hann í eina tvo tíma, og tókum svo lestina saman heim. Við vorum svo spennt yfir nýja vininum að við tókum ekki eftir því fyrr en hann var farinn út úr lestinni að við vorum á vitlausu spori. Það var ekkert mál, við skutluðumst bara út á næsta stoppi og ákváðum að taka næstu lest til baka og reyna aftur. Nema þá vildi svo skemmtilega til að þetta hafði verið síðasta lest næturinnar, og ekki von á annari næstu fimm tímana. Það var mjög snautlegt par sem tók leigubíl heim…

Dagur 8

Í morgun skildi ég Magga eftir heima í reiðileysi og fór að skrá mig í skólanum mínum. Okkur hafði borist póstur þess efnis að við mættum skrá okkur formlega í dag, og verandi samviskusömu konurnar sem við erum þá fórum við Harpa á stúfana. Í ljós kom að þessi formlega skráning fól það í sér að við læsum fæðingardaginn okkar af blaði og staðfestum að hann væri réttur (ekki með því að kvitta neinsstaðar, bara með því að kinka kolli). Gott við rifum okkur upp og tókum lest og strætó til að standa í þessum stórræðum. Eftir þetta erfiða ferli skelltum við okkur á Söder, aftur á Copakabana þar sem við borðuðum ljúffengar samlokur og “lærðum”. Á leiðinni fann ég hinn fullkomna hlut í sérkennilega glerskápinn í stofunni sem við vitum ekkert hvað við eigum að gera við. Hann verður keyptur um leið og fæst leyfi hjá Magga. Tada:

púðla

Króm-púðla!

Við biðum svo eftir að dótið sem við sendum með skipi bærist okkur, það átti að gerast í dag, en Samskip hringdu sig inn veik fljótlega eftir hádegið, og ætla að snýta sér í búslóðina fram á fimmtudag. Við ákváðum þá að gera víðreist og skoða gymmin þrjú sem eru í hverfinu, og reyna að velja á milli þeirra. Valið stendur á milli dýrs SATS (með klifurvegg, sem augun í Magga tvöfölduðust við að sjá), sæmilegs Friskis&Svettis (ísl. Feit og sveitt) eða mjög svo spúkí World Class (“Þið þurfið að borga aukalega fyrir að æfa í hinum útibúunum okkar. Nema þessu í Alvik, bróðir minn vinnur þar”). Málið er  í nefnd. Í leiðangrinum rákumst við á Ísafjarðargötu og Gullfossgötu. Borgarfjarðargata verður skoðuð með meiri viðhöfn við betra tækifæri. Á leiðinni heim fannst okkur viðeigandi að nefndarstörf varðandi val á líkamsræktarstöð færu fram á hamborgarastað. Max varð fyrir valinu, því þeir gróðursetja tré til að kolefnisjafna máltíðina okkar. Við erum sökkerar fyrir svoleiðis löguðu.

Á morgun: Kynningardagur fyrir meistaranema, sem endar með skralli um kvöldið. (Verst að partýhattarnir og glowstickin voru á skipinu).

Eins og svo oft þá tók Maggi fallegar myndir í dag. Vessgú:

Dagur 7

Eftir að hafa byrjað daginn á gagnlegu nótunum með kaupum á síðustu skólabókinni (bona fide lögfræðidoðrant) var rölt um Stokkhólm og Hedvig Eleonora kirkjan skoðuð.

Hedvig Eleonora kyrka

Hedvig Eleonora kyrka

Hedvig Eleonora kyrka

Hedvig Eleonora kyrka


Því næst lá leið til Skanstull, þar sem Harpa Sif Eyjólfsdóttir (fundum Íslending í Svíþjóð!) mætti okkur, og gengið meðfram árbakkanum í átt að einu hinna fjölmörgu opnu grænu svæða sem finna má í borginni.
Sáum ýmislegt skemmtilegt á leiðinni:

Sænsk módel-önd

Sænsk módel-önd

Sænsk smáhús

Sænsk smáhús

Jag ska måla hela världen lilla mamma

Jag ska måla hela världen lilla mamma

Bleikur ruslabófi

Bleikur ruslabófi

Unnur og Harpa Sif ræða málefni líðandi stundar

Unnur og Harpa Sif ræða málefni líðandi stundar


Fundum (sennilega) heimsins minnsta kaffihús þar sem við tylltum okkur á nokkra steina, dýfðum tánum í ána og gáfum öndunum smákökubita.

Minnsta kaffihúsið í Stokkhólmi

Minnsta kaffihúsið í Stokkhólmi

Sænsk önd og tærnar á Hörpu Sif

Sænsk önd og tærnar á Hörpu Sif

Don Andelone og sænska anda-mafían

Don Andelone og sænska anda-mafían

Harpa Sif gefur öndunum

Harpa Sif gefur öndunum

Laumaðist til að taka myndir af blómum og fylgjast með sambandi þeirra við býflugurnar (ekki jafn spennandi og látið er af).

Býflugan og blómið

Býflugan og blómið

Eitt eilífðar smáblóm og önd í bakgrunni

Eitt eilífðar smáblóm og önd í bakgrunni

Eitt eilífðar smáblóm og öndin stungin af

Eitt eilífðar smáblóm og öndin stungin af

Yfirgefið smáblóm, engin býfluga

Yfirgefið smáblóm, engin býfluga

Skemmtileg staðreynd skoðun dagsins: leiknir sænskir gamanþættir eru hrikalega hallærislegir.

Myndasafn dagsins:

Dagur 6

Sunnudagur var lestrardagur, og hvar er betra að lesa en á litlu huggulegu kaffihúsi? Eftir að hafa ráðfært okkur við internetið var haldið til Södermalm á Kafe Copacabana, lítið og huggulegt kaffihús við árbakkann.

Copacabana

Kafe Copacabana


Árbakki á Södermalm

Árbakki á Södermalm


Litla lífræna kaffihúsið átti ekki Coke, né Pepsi – en buðu þess í stað upp á Nygård “ekologisk cola”.

Nygård

Nygård

Uppgötvun dagsins var fílamjólk, með banana og lime bragði, úr léttfílum, meðalfílum og ekológískum fílum.