Fyrsti laugardagurinn í Stokkhólmi var könnunar- og túristadagur. Á dagskrá var tvennt; að staðsetja húsnæðið sem námið hennar Unnar er í, og (öllu mikilvægara skilst mér) að finna sænskt garn svo hún gæti prjónað. Google Maps höfðu upplýst hvar tvær prjónabúðir var að finna milli lestarstöðvar og skólahúsnæðisins, svo haldið var af stað.
Eftir að fyllt hafði verið á garnbirgðir heimilisins var haldið í átt að skólanum, og stórkostleg uppgötvun var gerð á leiðinni. Lakrítsroten við Sveavegen, sérverslun fyrir lakkríssælkera sem hefur á boðstólunum íslenskan lakkrís! Á eftir að koma sér sérlega vel ef heimþráin grípur okkur.
Skömmu síðar fundum við skólahúsið og tókum hring kring um það, Unnur stillti sér upp fyrir myndavélina í gerfi fúla táningsins.
Skólahúsið stendur steinsnar frá Vanadislunden þar sem er að finna afskaplega fallega kirkju og vatnsból sem byggt er eins og kastali.
Eftir að hafa snætt sænskan Subway var haldið á vit ævintýranna. Á lestarkortinu sáum við lestarstöð sem stóð við Islandstorget og var snarlega ákveðið að fara í pílagrímsferð.
Þegar þangað var komið lentum við í fyrsta almennilega rigningarskúrnum, líkt og hellt hefði verið úr fötu opnuðust himnarnir og við gátum prufukeyrt nýju regnhlífarnar sem Unnur hafði haft vit á að kaupa deginum áður.
Þar sem óskup lítið var að sjá í nánasta umhverfi lestarstöðvarinnar var ákveðið að stökkva upp í næsta strætó og athuga hvert hann myndi vilja ferja okkur (reyndist vera stór hálf-hringur í Södra Ängby). Innan við mínútu eftir að við stigum út úr strætóvagninum keyrði einstaklega almennilegur maður ofan í ágætis stöðuvatn sem hafði myndast á götunni rétt í þann mund er við áttum leið framhjá. Regnhlífar virka sem sagt ekki lárétt þegar þeim er haldið lóðrétt, athyglisvert.
Annað skemmtilegt frá því í dag:
og tilvitnun dagsins; “Það hægist eitthvað á netinu í rigningu!” – Unnur Margrét í Svíþjóð