Dagur 5

Fyrsti laugardagurinn í Stokkhólmi var könnunar- og túristadagur. Á dagskrá var tvennt; að staðsetja húsnæðið sem námið hennar Unnar er í, og (öllu mikilvægara skilst mér) að finna sænskt garn svo hún gæti prjónað. Google Maps höfðu upplýst hvar tvær prjónabúðir var að finna milli lestarstöðvar og skólahúsnæðisins, svo haldið var af stað.

Unnur búin að finna prjónabúð

Unnur búin að finna prjónabúð

Eftir að fyllt hafði verið á garnbirgðir heimilisins var haldið í átt að skólanum, og stórkostleg uppgötvun var gerð á leiðinni. Lakrítsroten við Sveavegen, sérverslun fyrir lakkríssælkera sem hefur á boðstólunum íslenskan lakkrís! Á eftir að koma sér sérlega vel ef heimþráin grípur okkur.

Opal

Opal: Rautt, Grænt og Svart!


Allskonar fyrir aumingja

Djúpur, Draumur, Tromp og Nizza

Skömmu síðar fundum við skólahúsið og tókum hring kring um það, Unnur stillti sér upp fyrir myndavélina í gerfi fúla táningsins.

Skólahúsið

Skólahúsið


Fúll táningur

Fúll táningur sem vill ekki fara í skólann.

Skólahúsið stendur steinsnar frá Vanadislunden þar sem er að finna afskaplega fallega kirkju og vatnsból sem byggt er eins og kastali.

Vanadislunden

Kirkjan í Vanadislunden


Vatnsbólið

Vatnsbólið. Öruggasta vatn Stokkhólms.


Unnur í Vanadislunden

Unnur í Vanadislunden

Eftir að hafa snætt sænskan Subway var haldið á vit ævintýranna. Á lestarkortinu sáum við lestarstöð sem stóð við Islandstorget og var snarlega ákveðið að fara í pílagrímsferð.

Islandstorget

Islandstorget

Þegar þangað var komið lentum við í fyrsta almennilega rigningarskúrnum, líkt og hellt hefði verið úr fötu opnuðust himnarnir og við gátum prufukeyrt nýju regnhlífarnar sem Unnur hafði haft vit á að kaupa deginum áður.

Unnur á Islandstorget

Unnur á Islandstorget


Rigning á Islandstorget

Rigning á Islandstorget

Þar sem óskup lítið var að sjá í nánasta umhverfi lestarstöðvarinnar var ákveðið að stökkva upp í næsta strætó og athuga hvert hann myndi vilja ferja okkur (reyndist vera stór hálf-hringur í Södra Ängby). Innan við mínútu eftir að við stigum út úr strætóvagninum keyrði einstaklega almennilegur maður ofan í ágætis stöðuvatn sem hafði myndast á götunni rétt í þann mund er við áttum leið framhjá. Regnhlífar virka sem sagt ekki lárétt þegar þeim er haldið lóðrétt, athyglisvert.

Unnur eftir rigningardólginn

Unnur eftir rigningardólginn

Annað skemmtilegt frá því í dag:

Gosbrunnur í Södra Ängby

Gosbrunnur í Södra Ängby


Kirkjan við Västmannagatan

Kirkjan við Västmannagatan

og tilvitnun dagsins; “Það hægist eitthvað á netinu í rigningu!” – Unnur Margrét í Svíþjóð

Dagur 4

Í morgun var dagurinn tekinn snemma, og stefnan tekin í miðbæinn að túristast örlítið. Við reyndumst vera meiri ráfarar og minna skipulagðir túristar en vonir stóðu til en þetta var alltsaman mjög huggulegt og maður er smátt og smátt að fá tilfinningu fyrir staðnum. Við skoðuðum Stadshuset:

StadshusetPlanið var að fara upp í turninn og horfa yfir Stokkhólm, en batteríið í myndavélinni var orðið slappt og við erum þeirrar skoðunar að ef það eru ekki til myndir af því þá gerðist það ekki, svo það verður geymt til betri tíma. Áður en myndavélin dó fékkst það hinsvegar staðfest að með í för voru bæði Maggi:

Maggi túristiOg Unnur:

Unnur túristiSérlega hresst fólk. Ég rakst á garnbúð og sýnist slíkur munaður töluvert dýrari hér en á Íslandi, sem hjálpaði mér að réttlæta alla lopapokana sem eru á siglingu til okkar í þessum töluðu. Mikið er annars fínt að hafa svona lítið dót heima hjá sér. Ekkert mál að halda öllu spikk og span. Er að spá í að segja Samskips-fólki bara að skipta okkar veraldlegu eigum á milli sín og njóta vel. (Nema auðvitað lopanum, hann vil ég fá. Og poppvélina hans Magga. Og safapressuna. Og kannski væri nú gott að fá úlpuna sína. Hm.)

Næst á dagskrá var nestis- og lestrartími (og síðdegisblundur fyrir mig. Er hress í útlöndum). Svo var haldið út af örkinni til að kaupa á mig skólaskó og skólatösku. Ég keypti fyrstu skóna sem ég sá (er haldin töluvert minni valkvíða í Svíþjóð en á Íslandi, held það sé kviknað á frumstæðri þörf til að komast af í ókunnu umhverfi), og eiginlega dagsgöngupoka sem nýtist líka sem skólataska. Hann var keyptur afburða gulur svo þyrlan sjái mig á hálendinu er þörf krefur (og til að Maggi ræni honum örugglega ekki). Góssið:

GóssiðNú skal slakað á í sófanum og horft á æsispennandi drama um persónulegar krísur sænskra samkvæmisdansara í Englandi. Krassandi sænsk sjónvarpsdagskrá í kvöld.

Á morgun: Skólabókalestur á kaffihúsi.

Dagur 3

Eftir að hafa fengið mér hollan og staðgóðan morgunverð (les. hnetusmjörs-m&m) héldum við á kaffihús á Södermalm að lesa námsbækur og drekka kaffi. Ég er að reyna að finna sjálfsaga til að lesa fræðibækur aftur, svo ég innleiddi kerfið “hálftími af skólabók, kortér af annarri bók að eigin vali” og það gekk mjög vel. Það hjálpaði að klósettpásur, pása til að hringja í mömmu og pása til að borða grískt souvlaki var allt strategískt dregið frá skólabókatímanum. Engu að síður. (Það þarf ekki að fylgja sögunni að Maggi las skólabókina sína allan tímann og svitnaði ekki einu sinni.)

Fuglar

Á meðan Maggi útbjó kjúklingasalat fór ég út að hlaupa, í fyrsta sinn í Svíþjóð (6.5 km, í yndislegu veðri). Það kom mér á óvart, þar sem ég er að hlaupa í “alvöru” borg, að ég var ekki búin að vera lengi að þegar ég hljóp fram á heyrúllur og jórtrandi kýr. Kýrnar sýndu töluvert meiri viðbrögð við kurteisa vegfarenda-brosinu mínu en hinn almenni Svíi sem ég mætti. Greinilega ekki borg þar sem fólk býður góðan dag á förnum vegi. (Nema fólk hafi hreinlega blindast af ofur-appelsínugula kvennahlaupsbolnum mínum.) Eins og mig grunaði þá kunni ég bara að leggja af stað í hlaupið, en ekki að rata heim aftur. Á endanum fann ég samt verslunarmiðstöðina sem er rétt við götuna okkur, en ég kom svo asnalega að henni að ég vissi ekki hvar leiðin heim var. Svo ég gerði það eina sem mér datt í hug í stöðunni. Hljóp í fullum skrúða þvert í gegnum mollið. Það tók mig sumsé rétt rúma tvo daga að verða bæjaridjótið. Það er persónulegt met.

Á morgun: Einhvers konar túrista-aktivitet í Stokkhólmi.

Dagur 2

Í dag biðum við í röð í þrjá tíma hjá skattinum í Stokkhólmi til að fá kennitölur. Við lásum meðan við biðum, ég með augunum og Maggi með eyrunum. Svo borðuðum við kínverskan mat með súper-indæla leigusalanum og Hörpu, íslensku stelpunni sem er að byrja í sama prógrammi og ég og er þar með nýja besta vinkona mín (uss, hún veit það ekki ennþá). Staðurinn var mjög spes. Þetta var hlaðborð með stir fry, maður mokaði á disk öllu sem maður vildi hafa í því, og lét kokkinn fá það til að elda. Mér fannst skrýtið að setja hráan kjúkling á diskinn minn. Ég vonaði að kokkurinn setti matinn ekki á sama disk aftur þegar hann væri búinn að elda hann. Hann gerði það ekki, en ég horfði á hann skófla á diskinn minn með sama spaðanum og hann var að enda við að nota til að skófla hráum kjúklingi einhvers annars á pönnuna. Þegar ég kom heim gerði ég mitt besta til að kæfa yfirvofandi salmonellusýkingu með hnetusmjörs-emmogemmi. Er bjartsýn á árangurinn.

Á morgun:
– Skólabókalestur á kaffihúsi, sennilega á Södermalm (því við erum svo hipp og kúl fólk).
– Sjampó-innkaup (því Maggi keypti bara hárnæringu og handsápa dreifist ekki sérlega vel í hári).
– Hlaup (því ég svaf yfir mig í dag og skatturinn át hlaupið mitt).

Dagur 1

Við fórum eiturfersk á fætur kl. 4:30 í morgun, Siggi var svo despó að losna við okkur að við héldum tímaáætlun og allt. Samt náðum við ekki út í vel fyrr en það stóð “final call” á skjánum. Einhverra hluta vegna varð það til þess að við sungum “Final Countdown” alla leiðina niður ranann út í flugvél (Maggi var textinn, ég var undirspilið). Ég sá fólk draga strá um það hver þyrfti að sitja við hliðina á okkur. Sænskur treflamafíósi tapaði.

Mér er sagt að flugferðin hafi tekið 3 klst sléttar en við myndum ekki vita það því við vorum meðvitundarlaus allan tímann. Það fyrsta sem við sáum svo þegar út úr vélinni var komið var Starbucks, a.k.a. móðurskipið hans Magga.

Maggi kominn með kaffi

Símarnir okkar virka ekki í Svíþjóð, svo við notuðum myntsíma til að reyna að hringja í leigusalann okkar og biðja hana um að hleypa okkur inn í íbúðina okkar. Hún svaraði ekki, svo við lögðum farsímann minn (þar sem númerið hennar var vistað) snyrtilega ofan á myntsímann og yfirgáfum flugvöllinn. Eftir á að hyggja voru þetta ákveðin mistök af okkar hálfu. Það vildi nú samt svo heppilega til að leigusalinn les hugsanir og beið eftir okkur í íbúðinni þegar við komum þangað. Hér er allt eins og blómstrið eina; þráðlaust net, tvö sjónvörp, örlítið bylgjótt parket og fullt af pottablómum til að dunda sér við að murka lífið úr.

Í kvöld: Taka upp úr töskum, rölta um hverfið, horfa á sænskt menningar- og skemmtiefni.
Á morgun: Fá kennitölu, kaupa handklæði, hlaupa á sænsku, snæða með mússímússíleigusalanum. Mögulega skila loforði um 91 milljón sænskra króna sem við fengum í pósti en er merkt nágranna okkar. Því við erum heiðvirðir Íslendingar (þversögn?).

Hagnýtar upplýsingar:
– Skype: unnurmargret og magnus.sig
– Sænskir farsímar: +46 7 00 67 70 30 (Unnur) og +46 7 00 67 57 22
– Sænskur heimasími: +46 87 52 62 02
– Fjöldi pottablóma í bráðri útrýmingarhættu: 5
– Fjöldi nælonblóma sem verða mögulega (les. örugglega) vökvuð fyrir misskilning: 1
– Handklæði á heimilinu: 0
– Skítugir útlendingar á heimilinu: 2