Heimapróf hjá mér í dag, hóstandi á náttfötunum, mjög sorglegt. Maggi festist í lest á leiðinni í skólann og hringdi í paniki. Internetið kom til bjargar eins og svo oft, og hann komst heim heilu og höldnu, með smá ekka. Gestir á morgun, betri póstur þá (því þá skrifar Maggi…)
Monthly Archives: September 2010
Dagur 44
Skemmtielgurinn er búinn að vera slappur í dag, ég virðist hafa smitað hann af hósta og hita. Ég myndi fara strax útaf þessu bloggi aftur, spritta svo hendurnar, lyklaborðið og öll usb-tengi í húsinu.
Dagur 43
Dagur 42
Í dag kom Lee Andrew Bygrave og hélt fyrirlestur fyrir lögfræðlingana. Já, það eru sko líka rokkstjörnur í mínu námi!
Unnur virðist hafa smitast af Grísla og er komin undir sæng, með tebolla og í náttslopp. Þetta er annað hvort gríslingaflensan eða það að áfallið sem fylgdi því að ég lét út úr mér orðin “Á minn sann!” í partýinu góða er fyrst núna að koma í ljós.
Dagur 41
Í dag var frábært veður til langra gönguferða, sem var sérlega heppilegt þar sem við fórum akkúrat í eina slíka!
Lagt var af stað frá Frescati campus og gengið norður gegnum Norra Djurgården.
Myndir dagsins:
- Gönguferðin að hefjast
- Sænsk geimstöð með blómabeði
- Eini svanur dagsins
- Sænskt smáhús
- Þeim er fúlasta alvara.
- Merktur Las Vegas
- Það er brandari þarna einhvers staðar…
- Sérlega fallegt
- Þeir voru gæfir og möluðu þegar þeim var klappað
- Alvöru höll!
- Gosbrunnur í hallargarðinum
- Villigöltur með lítilli eðlu
- Pínu var hress
- Lítill var taugaveiklaður
- Virtist vera eyðibýli
- Alþjóðlegur og auðskilinn vegvísir
- Gríslingur í nærmynd
- Gíraffinn var hress
- Gíraffinn og Unnur, ég hef áhyggjur af þessu
Dagur 40
Í dag var Unnur hress og kát, og hlúði að Magga sem var rúmliggjandi til hálf fimm um daginn eftir ævintýri gærkvöldsins. Miklar vonir eru bundnar við það að ég verði hressari fyrir morgundaginn, þar sem stefnt er á 10km gönguferð með myndavél og leiðsögn.
Hvurslags ónáttúruleg mannvonska er það að bjóða upp á hákarl, Brennivín og Tequila? Fussumsvei!
Dagur 39
Þá var loksins komið að því, fyrsta partýið hjá lögfræðinemunum. Ákveðið hafði verið að það yrði haldið hjá hinum Íslendingnum í prógraminu, Teiti Skúlasyni, og þema kvöldsins væri þjóðlegir réttir/drykkir.
Alejandro bauð upp á Tequila beint frá Mexico. Mariusz mætti með Vodka frá Póllandi. Teitur hafði hákarl og Brennivín á boðstólum.Þar sem lyktin af Tequila ein og sér er nóg til að fá magann í mér til að snúa sér á hvolf, og hið sama á við um hákarl, var ekki sérlega viturlegt að taka þátt í þeim herlegheitum með hópnum – en stundum þarf maður að gera meira en gott þykir. Þrælskemmtilegt kvöld, allt þar til við fórum heim og líkaminn minn ákvað að láta í ljós óánægju sína með þessa óviturlegu meðferð. Lifrin mun seint fyrirgefa þetta.
Dagur 38
Þetta var langur skóladagur á báðum vígstöðvum, og skötuhjúin frekar uppgefin. Ég átti að vera í aðferðafræði sleitulaust frá níu til fjögur, en það kom gestur í skólann sem bjargaði okkur, og braut skólann upp með fyrirlestri í hátíðasalnum. Það sást á kennurunum að þau voru spennt, öll skælbrosandi út að eyrum og í sínu fínasta pússi. Karlarnir vatnsgreiddir, einhverra hluta vegna. Þessi rokkstjarna sem heimsótti okkur heitir Michael Marmot og hefur skrifað meirihlutann af öllu sem í er vitnað í náminu mínu. Yfirmaður prógrammsins var svo spenntur þegar hann kynnti Marmot á svið að hann hrasaði um hljóðnemasnúruna og rétt náði að grípa í handrið til að forða sér frá því að detta niður stiga. Fyrirlesturinn var mjög skemmtilegur, greinilega vanur maður á ferð, og boðskapurinn skýr og innblásinn. Stéttamismunur (glæpsamleg einföldun náttúrulega) á heilsu fólks og lífslengd er mikill um allan heim og alltaf að aukast. Það er hægt að loka þessu bili með einni kynslóð, við vitum hvað þarf að gera, við höfum allt sem þarf til að gera það, það vantar bara viljann. Ég mun mögulega vatnsgreiða mér ef ég verð svo heppin að sitja annan fyrirlestur hjá manninum. Af því ég veit að þið eruð sérstaklega áhugasöm um málið, þá eru hér tenglar á tvö verka hans sem hægt er að niðurhala (löglega):
Closing the gap in a generation, skýrsla fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina
Fair Society, Healthy Lives, líka kölluð “the Marmot Review”
Rokkstjarna.
Dagur 37
Dagur 36
Þegar maður kemur kaldur og hrakinn heim úr skólanum klukkan hálftíu eftir alltof langan sænskutíma þá er ekkert betra en hlýr Maggi sem bíður eftir manni með nýjan þátt af How I Met Your Mother.