Dagur 76

Alltaf jafn gaman að læra eitthvað nýtt á síðustu metrunum í undirbúningi fyrir próf.

Mér til mikillar furðu var ég að komast að því að orðið ‘foodstuffs‘ er raunverulegt orð, en ekki orðskrípi líkt og ég hef haldið (og notað það).

Já svona getur neytendavernd verið skemmtileg!

Dagur 75

Í dag fór ég ekki í ræktina því ég var of upptekin við að kaupa mér íþróttaföt.

Já ég sé líka gallann á planinu.

(Svo notaði ég téð íþróttaföt til að horfa á vídjó, borða döðlur og skrópa í hrekkjavökupartíi því ég nennti ómögulega að redda mér búningi. Leimó.)

Dagur 74

Eftir langan og strangan dag af prófalestri var haldið niður í bæ til að halda upp á afmælið hennar Sofie. Kíkt var á huggulegt kaffihús á Gamla Stan, sem átti að vera opið til miðnættis en var lokað uppúr tíu – þar sem afgreiðslufólkið “vildi komast heim til sín”. Engu að síður prýðilegt kvöld með afmælisbarni og nokkrum afmælisgestum úr prógramminu og sænskunáminu þeirra Sofie og Unnar.
Ég var eini karlmaðurinn í boðinu, sem var athyglisverð upplifun. Var neyddur til að biðjast afsökunar á almennu framferði karlmanna um heim allan… tvisvar. Unnur benti á að hlutföllin í afmælisboðinu hefðu verið sex yngismeyjar á hvern karlmann, og ég gæti því ekki kvartað mikið.

Maggi & afmælisbarnið

Maggi & afmælisbarnið

Myndavélin fékk að fljóta með, en var fljótlega gerð upptæk af afmælisbarninu og var því ekkert vitað um myndatökur kvöldsins fyrr en heim var komið.
Dramatískt svarthvít mynd dagsins

Dramatískt svarthvít mynd dagsins

Skemmtilegt kvöld í góðum félagskap með prýðilegum hlutföllum.

Dagur 73

Í gærkvöldi sló ég nýtt persónulegt met í lúðahætti þegar ég stóð í klukkutíma í anddyrinu á stúdentapöbbnum með hinum sænskunemunum, með bjór í hönd, í úlpu og með skólatösku á bakinu. Fólkið var ekki tilbúið að skuldbinda sig til að  vera á pöbbnum nógu lengi til að það borgaði sig að SETJAST Á RASSINN OG FARA ÚR YFIRHÖFNUNUM svona rétt á meðan það sötraði bjórinn sinn. Eftir óhóflegan fjölda kokteilboða síðustu ár þá neita ég að drekka standandi nema ég sé á launum.

Dagur 72

Eins þægilegt og það getur verið að lesa undir próf á kaffihúsi, þá gerist voðalega lítið spennandi á meðan. Bömmer.

Lúxusvandamál?

Dagur 71

Ég hélt í kvöld fyrirlestur á sænsku. Ég var fjórða og síðust, og allir sem töluðu á undan mér lögðu metnað í að halda vísindalegar og agaðar tölur um fáguð efni eins og fornleifauppgröf í V-Svíþjóð, lagarammann sem snertir snus og leikskáldið og óþekktarorminn Strindberg. Þau vísuðu í heimildir og voru með aðferðafræði á Powerpoint. Ég stal myndum af netinu og talaði um Svíþjóð í Eurovision. Svo færði ég rök fyrir því af hverju Svíþjóð ætti að afhenda okkur bikarinn frá 1999. Að lokum dansaði ég brot af dansinum við Fångad av en stormvind.

PS. Vissu allir nema ég að Herrey’s bræðurnir sem unnu með Diggi-Loo Diggi-Ley þóttu svo óþolandi ferskir að þeir voru kallaðir “De dansande deodoranterna”? Fliss.

Dagur 69

Ég er að skrifa fyrirlestur um Svíþjóð í Eurovision, svo ég þurfti auðvitað að spila úrval af þeim lögum sem Svíþjóð hefur sent í keppnina á meðan ég vann. Maggi lærði á kaffihúsi í dag. Það er mögulega orsakasamhengi.

Kvöldinu eyddum við með Hörpu Sif og Rósu, í gómsætu og skemmtilegu matarboði. Mér finnst ég aðeins meira eiga heima hérna eftir að hafa farið í matarboð. Það er eitthvað við það. Eftir að hafa séð hvað íbúðin hennar Hörpu er orðin mikið meira kósý en íbúðin okkar höfum við Maggi lagt höfuðið í bleyti og komist að því að hvorugt okkar er með hæfileika þegar kemur að því að innrétta og gera huggulegt. Hvað gera bændur þá? (les. Hvað eigum við eiginlega að gera við glerskápsómyndina??)

Frönskukaffi á morgun, vonavonavona að það verði enginn kattamatur.

Dagur 68

Í dag ákváðum við að prufa nýuppgötvað kaffihús hérna í hverfinu, Espresso House, sem virðist vinsælt hjá námsmönnum. Sérlega huggulegt að sitja þar við lestur og ágætis kaffi – spái því miklum vinsældum í prófalestri næstu viku.