Dagur 66

Mér reiknast til að ég sé búin að bíða eftir lestum í ca. milljón klst í dag. Lestarnar í einhverju ólagi. Þá er nú gott að vera með hljóðbók í eyrunum, og hálfheklaðan vettling í töskunni.

Ég fór í sænskutíma í kvöld, hjá kennslukonunni sem spyr óþægilega persónulegra spurninga. Í þetta sinn réðist hún á saklausan Hollending og spurði hann hvernig fjármálin hans væru. Svo spurði hún gæjann frá Kenýa hvernig honum gengi að eiga í samböndum við konur. Því næst vildi hún vita hvort samband Portúgalans við konuna sína væri í einhverjum vandræðum eftir að þau eignuðust barn. Að lokum sagði hún okkur að hún væri sjálf ekkja sem vaknaði á næturnar til að borða súkkulaði. Ég hef ákveðnar áhyggjur. Ég held ég sé að læra hvernig ég get verið aðalpersónan úr Eymd á fullkominni Stokkhólms-sænsku…

Dagur 64

Stóra sósumálið hefur verið leyst með því að fjarlægja miðann af flöskunni. Núna heitir hún ‘Sósa hússins’ og má fara á hvað sem er.

Unnur labbaði stóran hring um hverfið til að komast í hús í næstu götu, því þannig sýndi Google Maps leiðina. Get svo sem ekki sagt mikið, gerði nákvæmlega það sama þegar við fórum í hákarlspartýið.

Dagur 63

Í dag stakk ég upp á því að við hefðum kjúklingaborgara í matinn. Því var vel tekið þar til ég muldraði eitthvað um að setja á þá pítusósuna íslensku sem við búum svo vel að eiga í ísskápnum. Ég sá strax á svipnum á Magnúsi að það yrði ekki liðið á heimilinu. Pítusósa fer á pítur, hamborgarasósa á allt sem endar á -borgari. Þannig hófust hatrammar deilur á heimilinu, sem ekki sér fyrir endann á enn. Ég gerði óformlega skoðanakönnun á fésbók, niðurstaðan var mér í hag en var dæmd ógild þar sem kynjahlutföll voru ekki jöfn meðal svarenda. Ég setti á mig snúð í kjölfarið (þó ég dáðist í laumi að strangri jafnréttisstefnu sambýlingsins). Það er trikkí að búa með öðru fólki.

PS. Gangi Magga vel að taka með sér nesti á morgun, þar sem ég hef tekið lokin af öllum nestisboxunum í mína vörslu. Muhahaha!

Dagur 62

Blásið var til lestrarstundar á kaffihúsi í miðbænum í dag; kíktum fyrst á Kulturhuset með Sofie og Mathilda.

Klifrað á Kulturhuset

Klifrað á Kulturhuset

Toppnum náð

Toppnum náð

Skemmtileg list

Skemmtileg list

Turninn á Sergelstorgi er kominn aftur í sína venjulegu liti.
Pink no more

Pink no more

Röltum síðan upp Drottningargötuna og pöntuðum ‘Snickers’ – sem var sérlega vinsæll kaffidrykkur þegar við kíktum í skoðunarleiðangur í Apríl.
Gæti verið verra

Gæti verið verra

Dagur 61

Í gær var afmælispartý hjá Alejandro (1 & 2). Engin myndavél var tekin með að þessu sinni, en við höfum verið merkt á nokkrum myndum á Facebook (1, 2, 3, 4 & 5).

Vorum hress og héldum okkur innan skynsemismarka. Skemmtielgir virðast læra af mistökum sínum. *hóst-hóst*

Dagur 59

Það er alveg frábært að vera á facebook þegar maður á afmæli í útlöndum!

Ég ætlaði í kvöld að hitta bekkinn minn á kaffihúsi í miðbænum, og fara svo út að borða með Magga þegar hann kláraði skóladaginn sinn seint og um síðir. En þrátt fyrir að hafa skoðað kort á netinu vandlega áður en ég lagði af stað þá tókst mér aldrei að finna umrætt kaffihús. Einhver var greinilega búinn að færa öll skiltin. Þegar ég var búin að ráfa um og leita í klukkutíma kom Maggi, svo ég afskrifaði kaffihittinginn og við fórum að leita að veitingastað til að borða afmæliskvöldverð. Eftir að hafa ráfað í klukkutíma í viðbót tókst okkur loksins að finna veitingahús sem okkur leist á og var ekki sjúklega dýrt, voða sætan lítinn stað á Östermalm. Þá var ég hinsvegar orðin svo köld og hrakin eftir þetta óhóflega ráf, að við mokuðum matnum í okkur á ógnarhraða til að komast heim að afþíða mig undir teppi. Ekki mjög rómó, en allar fallegu gjafirnar að heiman og símtölin, skilaboðin og tölvupóstarnir meira en bættu það upp, og ég fer mjög sæl að sofa, 27 ára gömul. Takk fyrir mig!

Dagur 57

Í dag var boltaveisla og því blásið til strákakvölds hjá Teiti til að fylgjast með leik Hollands og Svíþjóðar. Ef marka má kynna leiksins var þetta reyndar leikurinn Zlatan gegn Hollandi, þar sem ekki var minnst einu orði á aðra leikmenn, engir aðrir leikmenn sýndir í mynd fyrir leikinn – og enginn annar leikmaður með sér tileinkaða útsendingu (Zlatan cam) samhliða leiknum. Ákveðin kaldhæðni þar sem leikurinn endaði Holland 4 – Zlatan 0 – Svíþjóð (rest) 1. Drengurinn sást ekki allan leikinn, nema rétt til að brjóta á andstæðingunum. Engin George Best-leg afrek hjá honum í kvöld.

Nú er haustið á þeirri skoðun að það sé kominn tími til að stytta daginn örlítið og lækka hitastigið samhliða, sem er svo sem ekki neitt tiltökumál fyrir okkur Íslendingana – en fer hins vegar alveg með vesalings Alejandro frá Mexico, sem var skjálfandi í þykku dúnúlpunni sinni yfir leiknum. Verður gaman þegar veturinn skellur á.
Þetta gerðist stuttu eftir að hann hafði náð að ýta á þrjá hnappa í lyftunni meðan hann var að baksa við að opna lyftudyrnar á hæðinni hans Teits, með þeim afleiðingum að við vorum fastir í lyftu með opnar dyrnar á hæðum 5 og 6 á sama tíma. Mjög skammlíf krísa, og skemmtilegt ævintýri.

Komst jafnframt að því að stærðfræði virkar ekki eins í Svíþjóð og á Íslandi, mér til mikillar ánægju. Greip mér bita á lestarstöð háskólans áður en haldið var á boltakvöldið (pylsutilboð, tvær fyrir 30 SEK + drykkur fyrir 20 SEK) og greiddi fyrir með 50 SEK seðli. Afgreiðslukassinn vildi meina að ég ætti að fá 4 SEK til baka, sem afgreiðslustúlkan hló að og sá skiljanlega að væri algjör della – og rétti mér svo 10 SEK sem hún var harðákveðin í að væri réttur afgangur. Glæsilegt.