Dagur 106

Sænskir fjölmiðlar hafa dregið aftur yfirlýsingar sínar þess eðlis að komandi vetur verði sá kaldasti í þúsund ár, núna stefnir víst í að hann verði einungis sá kaldasti í hundrað ár. -20°C frosti spáð á næstu dögum, við bíðum spennt. Sólarlönd einhver?

Dagur 105

Það var vandræðalega illa heppnuð auglýsing sem mætti mér í strætóskýlinu í morgun. Mörby Centrum auglýsti hugmyndir að jólagjöfum handa mömmum. Ég veit ekki með ykkar mömmur, en mín yrði arrí ef ég gæfi henni viskustykki, möffinsform og sleif.

Gangi ykkur vel með þetta bara... Úff.

Dagur 104

Unnur sæt og fín á leið í partý

Unnur sæt og fín á leið í partý

Uppgötvuðum í dag að ekki nóg með að til standi að opna tvö ný kaffihús hérna í hverfinu, heldur er lærdómskaffihúsið okkar komið í jólaskapið, og býður upp á Piparkökumöffins með Jólasveinalatte!

Dagur 103

Í kvöld fer ég í partý með sænskunámskeiðsfélögum mínum. Allir eiga að koma með eitthvað að snarla, svo ég gerði 20 litlar ostakökur í glögg-glösum (við Maggi erum bæði algjörlega búin á því eftir að hafa handþeytt hálfan lítra af rjóma). Hér er ennþá þessi fíni jólasnjór, og 10 stiga frost, og partýið er hinumegin við Stokkhólm. Mig gæti ekki langað minna út úr húsi, en hvað á ég þá að gera við allar þessar ostakökur?? Ætli ég druslist ekki á staðinn, enda búið að kaupa nóg jólaglögg til að fá okkur öll til að tala reiprennandi sænsku, þó ekki sé nema þetta eina kvöld.

Emo-ostakaka ein í snjónum

Emo-ostakaka ein í snjónum

Hindberjaostakökur í skókassa

Hindberjaostakökur í skókassa

Dagur 102

Það er bót í máli, fyrst Ása þurfti að fara heim, að hún skildi eftir kúlusúkk til að deyfa sársaukann. Konan kann sig.
Annars sátum við sakleysingjarnir hérna á náttsloppunum í morgun með munnana fulla af ristuðu brauði þegar það var bankað. Maggi tapaði störukeppninni og fór til dyra. Það reyndust vera… dyrasölumenn! Án gríns, door-to-door dyrasölumenn, að bjóða okkur að kaupa hurð á tuttogfjögurþúsund sænskar. Þegar Maggi afþakkaði pent (og benti þeim á að sú staðreynd að þeir gripu ekki í tómt þegar þeir reyndu að banka ætti að segja þeim að við ættum þegar útidyrahurð). Þeirra smooth sölusvar við því var “Come on man!”. Maggi lét ekki glepjast. Hurðin verður sennilega horfin þegar við vöknum á morgun.

Dagur 101

Dagur 100

Dagur 100 var ekki eins glamúruss og hann hljómar. Ég skreið undan sænginni beint undir teppi, og þverneitaði svo að hreyfa mig þaðan það sem eftir var dags. Maggi (aka Gubbi litli) fór í skólann og talaði við leiðbeinendann sinn, hann verslaði í matinn, og gerði ýmislegt gagnlegt fyrir þjóðfélagið. Ég dröslaðist undan teppinu bara rétt nógu lengi til að elda hræðilega vont gúllas í kvöldmat, og leit á árangurinn sem tákn um að það hefðu verið mistök að yfirgefa teppahreiðrið til að byrja með.

Dagur 99

Í dag var ég uppvakningur (án uppvakningagöngu, þótt ég virðist hafa uppfyllt skilyrði um fjölda þáttakenda í slíkum). Einbeitti mér að því að safna orku eftir átök gærdagsins, og hafði enga orku í annað.
Unnur var öllu hressari, skottaðist í skólann og stússaðist um íbúðina hlúandi að mér. <3

Dagur 98

Í dag var ekki besti dagurinn í Stokkhólmi. Ása fór heim, ég lærði á sama blettinum í sófanum í allan dag, og Maggi svaf og gubbaði til skiptis. Reynum að gera betur á morgun.

Dagur 97

Plan dagsins var að fara upp í turninn á Stadshuset, fyrst það var þoka og lítið skyggni í gær. Veðrið var óbreytt í dag, en við létum það ekki aftra okkur!

Stadshuset

Stadshuset

Þegar við komum á svæðið komumst við að því að turninn er lokaður á Sunnudögum. Við létum það aftra okkur. Til að bæta sér það upp fóru stúlkurnar í verslunarleiðangur þegar heim var komið. Núna er það sófi, afslöppun með sjónvarpinu og mögulega örlítið af ís til að ná sér niður.
Myndir dagsins: