Dagur 151

Ég er loksins kominn með stúdentakortið frá nemendafélaginu, en það virðist hafa verið að þvælast um póstkerfið hérna í Stokkhólmi síðan í byrjun september í fyrra. Unnur skráði sig á sama tíma en er ekki ennþá komin með sitt. Greinilega ekki sama hver á í hlut.

Eins gott að maður ferðast með lest en ekki póstbíl í skólann.

Dagur 149

Í dag var minna viðbjóðslega kalt en oft, svo við skelltum okkur í ullarnærfötin og út að labba, Maggi með myndavél í hönd.

Við Maggi utanhúss

Kankvís refur

Tvö rómantísk snjókvikindi í vetrarsól

Takið sérstaklega eftir þverslaufunum

Sænsk nútímalist

Skyndilega þutu framhjá okkur hestvagnar

Allt galleríið er hér að neðan, kíkið á það, Maggi er dálítið lunkinn.

Dagur 148

Dádýrskálfarnir virðast vera farnir að færa sig upp á skaftið. Í dag lá einn þeirra í mestu makindum og horfði á lestina keyra framhjá sér, líkt og ekkert væri sjálfsagðara. Þeir verða eflaust komnir um borð í lestina innan skamms.

Harpa kom í heimsókn með innflutta randalínu, og þær Unnur efndu til prjónastundar yfir handboltaleiknum. Já og jólaskrautið var tekið niður í dag, að Grísmundi II undanskildum – hann vill víst vera uppi við eitthvað lengur.

Tvífari Grísmundar II

Tvífari Grísmundar II

Dagur 147

Í dag fórum við Harpa í könnunarleiðangur um föndurbúðir Stokkhólms (bara afsökun fyrir að fara í göngutúr og fá okkur kaffi). Ég sá ýmislegt sem fékk mig til að óska þess að ég væri duglegri föndrari, og minna dugleg við að líma puttana á mér saman og fasta við annað eyrað. Kannski þegar ég verð fullorðin. Svo um leið og ég skildi við Hörpu þá týndist ég í miðbænum og ráfaði framhjá mörgum lestarstöðvum áður en ég fann loksins þessa einu sem ég var búin að bíta í mig að mér þóknaðist að taka lestina frá. Var frekar hrakin þegar ég kom heim, en með smá föndurdót í poka sem fékk mig fljótt til að gleyma kuldanum. Nú á hinsvegar bara að hlýna á okkur næstu daga (ég sá meira að segja nokkrar rauðar tölur í langtímaspánni fyrir næstu viku!), sem er ekki nema sanngjarnt þar sem mér skilst að á tímabili hafi verið 20°c heitara á Íslandi en í Stokkhólmi, -10 hér og 10 þar!!

Dagur 146

Ég er búin að vera að lesa hlaupabókina góðu sem Sylvía gaf mér í afmælisgjöf, og er orðin alveg viðþolslaus að hlaupa úti. Ég er meira að segja með þessa líka fínu mannbrodda alveg tilbúna á útihlaupaskónum. En það verður bara kaldara og kaldara með hverjum deginum, og eins ágætt og það er að hlaupa úti í kulda þá dreg ég mörkin við það að hlaupa með frosin nefhár. Ég er opinberlega búin að gefast upp á að hlaupa á hlaupabrettinu í ræktinni (en búin að senda harðort kvörtunarbréf á gymmið vegna hneykslanlegrar staðsetningar hlaupabrettanna, ég get ekki hlaupið 15 cm frá minni eigin spegilmynd, það særir sómatilfinningu mína) svo ef nefhárin þiðna ekki fljótlega fer ég að neyðast til að grípa til örþrifaráða eins og að læra á skíði. Guð forði okkur.

Dagur 145

Allt er gott í hófi, fyrsti skóladagurinn full langur eftir svona gott frí. Erfitt líf.

Tveir dádýrskálfar hlupu meðfram lestinni á leiðinni í skólann, þannig að þetta hlýtir að vera í góðu lagi allt saman.

Dagur 144

Fyrsti skóladagur nýrrar annar á morgun, verður hressandi að mæta aftur á fyrirlestur. Hressandi að lesa skemmtilegt námsefni eftir að hafa horft á landsleikinn gegn Spáni. Lýsing þeirra Simma og Jóa á ibs.is fær prik fyrir að gera tapleikinn bærilegan áhorfs.

Prufukeyrði nýtt kaffihús í gær og aftur í dag, sérlega prýðilegt. Næst besta kaffið í hverfinu, rétt tapar fyrir Kahls kaffiversluninni sem er á sama gangi í verslunarmiðstöðinni (en þar er ekki hægt að setjast niður með kaffibolla og læra). Ekkert þráðlaust net, en það kemur sér eiginlega bara frekar vel þegar maður þarf að halda sér við efnið.

Erum ennþá södd eftir að hafa farið út að borða í gærkvöldi.

Dagur 143

Í dag fékk Maggi dagsleyfi útúr hverfinu, í fyrsta sinn síðan við komum aftur til Svíþjóðar eftir jólin. Hann var að vonum glaður, og ekki síður þegar hann var kominn með fullan munn af nautasteik og bernaise. Ég mútaði honum svo með bananasplitti til að fá hann aftur upp í lest og heim til Kista. Delúx sunnudagur.

Dagur 142

Erfitt að blogga um daga þegar ekkert gerist. Í dag sat ég í sófanum allan daginn og prjónaði. Maggi sat við hliðina á mér og skrifaði ritgerð. Svo horfðum við á handboltann, elduðum og borðuðum súpu. Dagskrá kvöldsins er að horfa á eitthvað skemmtilegt og fara svo að lúra. Ekki mjög spennandi bloggefni, en einstaklega rólegur og huggulegur dagur. Einstaka sinnum er svo ágætt að gera bara sem allra minnst.