Dagur 141

Uppgötvun dagsins er sú að það er alls ekki jafn óþægilegt og ég hélt að vinna standandi við hátt skrifborð – það er eiginlega bara frekar þægilegt.

Dagur 140

Við horfum á landsleikina á netinu á meðan við hlustum á lýsinguna með Audda og félögum á “Í blíðu og stríðu” síðunni. Sá böggull fylgir skammrifi að myndin er ca 5 sekúndum á eftir lýsingunni þeirra, svo við vitum alltaf hvort sóknin eða vítið enda með marki eða ekki áður en við höfum tíma til að fara á límingunum af spenningi. Við verðum sennilega einu Íslendingarnir sem verða ennþá sæmilega heilir á geði eftir þetta mót.

Dagur 139

Með hjálp góðra granna höfum við loksins fundið gott brauð (ekki sætt og seigt) og góðan brauðost (án plastbragðs). Svei mér þá ef Svíþjóð er ekki bara betri í dag en í gær.

Dagur 138

Í dag á ég að blogga því ég gerðist svo kræf að fara útúr húsi, ólíkt Magga. Greinilega ný regla. Ég fór í skólann og fékk hópverkefni með sænskri skólasystur minni, sem krefst þess meðal annars að við lesum sitthvora skýrsluna, á sænsku, fyrir morgundaginn. Besta mál, hún segir mér að hún sé búin að skoða þær, þær séu jafn langar og velur sér aðra þeirra. Ég fer þá heim og á netið að skoða mína, og kemst að því að mín er 450 blaðsíður, en hennar, sem talar sænsku að móðurmáli, 150 bls. Ég hef lent í klónum á sænskum svikahrappi, og hef augljóslega ekki tíma fyrir blogg.

Dagur 137

Allt með rólegasta móti hjá okkur í dag. Unnur smakkaði semlur og sá til þess að fylla þyrfti á rekkana á útsölunum. Um kvöldið var stuðningsliðið mætt í sófann þegar Ísland sigraði Japan með flugeldasýningu.

Svíar halda Semludaginn (Fettisdagen) hátíðlegan þann 8. mars í ár, en virðast ætla að byrja að borða bollurnar sem allra fyrst og halda því svo áfram fram að Semludeginum sjálfum. Styð það. Þarf að gera út leiðangur og prufusmakka.

Dagur 136

Við erum nettengd!! Og ekki bara uppvið vegginn í forstofunni, ég er hreinlega að blogga í sófanum eins og fín kona!

Annars ringdi í allan dag á fína snjóinn okkar, og borgin varð að risastóru svelli. Við ætlum næst útúr íbúðinni í maí. Nema við verðum uppiskroppa með vistir, þá verður Maggi sendur út með ostarifjárn og fótarasp bundin neðan á skóna sína.

Dagur 135

Miðað við að heimamenn hafi verið að spila á HM í handbolta þurfti merkilega miklar fortölur til að sportbar hverfisins fengist til að sýna leikinn, sjónvörpin virðast sjálfkrafa leita uppi íshokkí og fótbolta eftir hverjar fimm mínútur af handbolta. Það hafðist þó á endanum og við horfðum á spennandi leik ásamt Hörpu. Af sportbar að vera voru þeir með slappa hamborgara, og það tók 10 mínútur og 5 beiðnir að fá fleiri vatnsglös á borðið okkar.

Eftir leikinn var haldið heim þar sem spilað var Ticket to Ride meðan við biðum eftir og horfðum síðan á Ísland – Brasilía. Ísleningar unnu leikinn og heimamenn unnu spilin, sem við vonum að hafi ekki eingöngu verið af því að Harpa var mjög einbeitt að fylgjast með leiknum.

Þurfum að gefa sportbarnum annað tækifæri, sennilega bæði með Ísland – Noregur og svo einhverjum leik með heimamönnum.

Dagur 134

Bloggað með dofinn rass á púða á gólfinu við forstofuvegginn.

Heimaprófi skilað.
Síðasta kúrsi náð svo möguleiki á að fá kannski námslán fljótlega.
Maggi að tapa geðheilsunni yfir stóra rátermálinu.
Algjört andleysi á bænum eins og er en það skiptir ekki máli því HELGARFRÍ. (Hjá mér. Maggi er ennþá að skrifa ritgerð.)
Missjón helgarinnar:
– Kaupa í skemmtilegt handavinnuverkefni (og fela vandlega allt hálfklárað sem ég nenni ómögulega að sinna eins og er)
– Beita hugarorkunni til að bræða snjóinn á hlaupaleiðinni minni
– Borða stjórnlaust til að bólstra rassinn, sem er orðinn mjög aumur af setu á gólfinu við heimaprófið í dag

Dagur 133

Nýr router kominn í hús ásamt nýjum straumbreyti. Hann kom víst fyrir fjórum dögum síðan en leigusalinn gleymdi að láta okkur vita.

Kom í ljós við prufun að það virtist vera allt í lagi með þann gamla, það var gamli straumbreytirinn sem var steiktur. Við nánari skoðun kom í ljós að hvorki gamli né nýji routerinn vill gera nokkurn skapaðan hlut fyrir okkur.

Skemmtielgurinn er að vinna í þessu og kemst vonandi til botns í málinu – en er ekki skemmt.

Dagur 132

Áfram snjóar í Stokkhólmi, líkt og enginn sé morgundagurinn. Það er svo sem ágætt þegar maður getur setið heima í sófanum undir hlýju teppi – en vesalings Unnur þarf að fara á bókasafnið þar sem enn bolar ekkert á nýja routernum, og hún þarf nettengingu fyrir heimaprófið sitt. Bókasafnið er nokkrum gráðum heitari en snjórinn úti, sem þýðir að Unnur er svo mikið dúðuð að ég held hún hafi farið út í öllum fötunum sínum í morgun. Náði ekki mynd af því, en hér er mynd af sænskum snjó.

Sænskur snjór.

Sænskur snjór.