Dagur 131

Í dag byrjaði ég í heimaprófi sem stendur fram á föstudag. Það er held ég stysta heimapróf í þessu meistaranámi hingað til, sem er frekar agalegt í sjálfu sér. Ég sé á stundaskránni minni fyrir vorið að flest próf eiga núna að ná yfir helgi, og skiladagurinn er þá á mánudegi. Ég sem hélt að Svíar væru indæl þjóð.

Maggi potast áfram með ritgerðina sína, og ýmis hliðarverkefni tengd henni. Í dag sýndi hann mér til dæmis hvernig hann var búinn að litagreina hana fallega í excel-skjali (mér sýndist hún í fljótu bragði vera “vor”). Ég þarf að fara að koma honum meira út úr húsi. En ekki fyrr en á föstudaginn.

Dagur 130

Í dag lærði ég það að ef maður setur samloku í grillið, stingur svo blandaranum í samband og bíður þolinmóður í kortér, þá gerist ekki neitt.

Dagur 129

Þessi dagatalning í fyrirsögnunum okkar var ágæt í kenningunni, en núna er þetta bara komið útí rugl. Þetta er farið að virka eins og maður sé að krafsa strik í fangelsisvegginn sinn fyrir hvern dag í óhamingju og volæði, sem er alls ekki tilfellið. Verðum að finna aðra lausn á málinu hið fyrsta…

Þessi prýðis sunnudagur byrjaði með hafragraut og löngum göngutúr í náttúrunni kringum hverfið okkar. Við sáum bæði spætu sem var að spæta, og eitthvað sem Maggi sjúkdómsgreindi sem “fasana inní runna”. Mannbroddarnir virðast vera að gera sitt gagn, ég var elegant og lóðrétt allt labbið. Nú sitjum við bæði á bókasafninu, Maggi að læra og ég að spyrja mig af hverju í ósköpunum ég fór undan rafmagnsteppinu mínu til að koma hingað í kuldann.

Fasani inní runna

Fasani inní runna

Í gær ætluðum við að vera flippað fólk á laugardagskvöldi og spila. Við fórum í mollið að leita að spili sem tveir geta skemmt sér við (Heilaspuni er ekki sérlega spennandi fyrir tvo leikmenn, þó þeir geti skemmt sér prýðilega við að lesa spjöldin upphátt til skiptis) en í öllu þessu stóra molli virðist ekki vera ein búð sem selur spil sem ekki eru bara fyrir börn. Sjokkerandi. Svo við horfðum bara á Stevie og fórum að sofa eins og úthverfapakkið sem við erum. Planið í kvöld: Halda litla kveðjuathöfn fyrir síðasta bitann af íslenskum osti á heimilinu. Maggi fer með hugvekju og ég syng þjóðsönginn (samtímis, til að gera þetta spennandi).

Dagur 128

Hér virðast menn hafa brennt sig á því að snjór getur fallið ofan á höfuð manna sem ganga nærri háum byggingum, þar sem borgarstarfsmenn hafa verið prílandi upp um alla veggi með skóflur og sópa í dag – mokandi niður snjódyngjunum sem voru að myndast.

Það er sennilegast fyrir bestu, ekki síst þar sem það hefur rignt svolítið í dag og snjórinn þá væntanlega þyngri – verður gaman að fara út á morgun og sjá hvort allt hafi orðið að slabbi.

Dagur 127

Fyrsta spilakvöldinu lokið með farsælum hætti. Harpa kom í heimsókn með Ticket to Ride og fékk að launum súpu. Afskaplega fínt kvöld og stefnt að því að endurtaka við tækifæri, auk þess sem okkur langar að reyna að koma á spilakvöldum með íslendingunum sem búa hérna í næsta hverfi. Kunnum reyndar ekki við það hversu góð hún er í spilum, vonum að um byrjendaheppni hafi verið að ræða.

Mig langaði hvort sem er ekkert að vinna þetta asnalega spil…

Dagur 126

Það virðist ekkert ætla að hætta að snjóa hér í Stokkhólmi, kyngir niður og nú á hlið líkt og heima á klakanum – allt beint framan í mann sama í hvaða átt maður snýr.

Bókasafnið (Plan A fyrir heimalærdóm) er lokað á þrettándanum, og kaffihúsið með nettengingunni (Plan B) er það líka. Merkilegt að það sé bara eitt kaffihús hér í hverfinu sem býður upp á þráðlaust net. Nýr router ætti að berast á mánudag eða þriðjudag, svo við reynum að sýna stillingu fram að því.

Dagur 125

Daglegt líf heldur áfram með ritgerðaskrifum og fyrirlestrum, og það er meiri snjór nú en þegar við fórum ef eitthvað er. Mikið rosalega er gott að byrja daginn með íslenskum osti og kaffi.

Það er dyravörður á bókasafninu okkar. Annaðhvort það eða þetta er bókasafnsvörður sem dreymir um það að starfa við öryggisgæslu. Hann stóð mjög ákveðinn við dyrnar þegar verið var að loka safninu í gærkvöldi og neitaði fólki aðgangi. Til öryggis tók ég með mér skilríki í dag ef þeirra skyldi verða krafist þegar ég reyndi að komast inn, en þess gerðist ekki þörf og ég komst átakalaust inn.

Dagur 124

Jæja, þá erum við komin aftur til Svíþjóðar eftir allt of stutta en einstaklega yndislega Íslandsferð. Hefðum alveg verið til í að vera lengur og hitta fleiri, en það verður að bíða betri tíma. Ansi hræddur um að nú taki við afvötnun eftir allan yndislega jólamatinn – hafragrautur og ávextir í öll mál.

Routerinn okkar ákvað að gefa upp öndina í morgun, erum nú að kanna hvort þjónustuaðilinn (eða leigusalinn) skaffi nýjan – eða hvort það falli á okkur. Þangað til verður það net á kaffihúsum og bókasafninu þegar þess gerist þörf, og netlaus kvöld með bók eða sjónvarpi – sem er reyndar bara frekar huggulegt. Sú hugmynd kom upp að hafa jafnvel eitt netlaust kvöld í viku almennt séð.