Dagur 169

Heimilisfólkið lærir og lærir í dag til að geta tekið sér algjört frí frá lærdómi á morgun. Við ætlum til Uppsala í tilefni af afmælinu hans Magga, þó það spái -16°C þar á morgun og líklegt að við tökum bara beint strik frá lestarstöðinni á næsta kaffihús til að bíða þar til vorar eða lestin okkar heim kemur, hvort sem gerist á undan.

Dagur 168

Risaeðlan er búin að vera fjörug í dag og hefur sparkað mikið í Unni.

Það er eitthvað sem ég væri öllu jafna mótfallinn, en þar sem mig langar að finna krílið sparka sjálfur ætla ég að gera undantekningu og hvetja til þess að sinni.

Dagur 167

Risaeðlan er að ganga í gegnum sérlega plássfrekt skeið, og eftir að hafa horft á mig blána í framan við að hneppa buxunum mínum nokkra daga í röð fór Maggi með mig í H&M að kaupa tveggja manna buxur (fyrir okkur risaeðluna, ekki okkur Magga. Það væri bara kjánalegt). Þvílík himnasæla! Af hverju ganga ekki allir alltaf í óléttubuxum? Veit fólk að það eru til rosa fínar gallabuxur með mjúku stroffi í staðinn fyrir streng? Af hverju vissi ég þetta ekki? Við náttúrulega súkkulaðibumban mín sem höfum ekki nennt að ganga í gallabuxum í mörg ár erum í sjokki.

Dagur 165

Þar sem hvorugt okkar var í fyrirlestrum í dag var lært um morguninn og haldið út í góða veðrið eftir hádegi.

Sól og snjór!

Sól og snjór!

Skuggalegir Skemmtielgir

Skuggalegir Skemmtielgir

Röltum um Gamla Stan og keyptum okkur nýtt spil; Small World, sem bíður eftir að verða prufukeyrt á eftir. Nutum þess síðan að slappa af á kaffihúsi þar til farið var að dimma og röltum heim á leið.
Magnaðir litir þegar kvölda tekur

Magnaðir litir þegar kvölda tekur

Sérdeilis prýðilegt

Sérdeilis prýðilegt

Afskaplega huggulegur dagur í Stokkhólmi.

Dagur 164

Það hefur marga kosti að vera bara í einum kúrsi í einu, einbeita sér bara að honum og klára, og byrja svo á næsta. Ókosturinn er hinsvegar sá að maður er ALLTAF. Í. PRÓFUM. Nú er skollið á enn annað heimaprófið, og stendur í viku fram á næsta mánudag. Þetta er sem betur fer bæði áhugavert og vel útfært próf, en það kemur ekki í veg fyrir að ég vorkenni sjálfri mér ægilega að þurfa að vinna það. Súkkulaðibúðingurinn í ísskápnum ber vitni um það.

Dagur 163

Vekjaraklukkan ræsti kl. 5 í morgun, sem hlýtur að teljast óábyrgt á laugardegi. Tók lestina kl. 6 og hóf þannig 3,5 klst. ferð til Romme Alpin skíðasvæðisins.

Horft upp fyrstu brekkurnar

Horft upp fyrstu brekkurnar

Veðrið og aðstæður hefðu ekki getað verið betri. Heiðskírt, glampandi sól, blankalogn og nýfallinn 30-35cm snjór (til viðbótar við rúmlega eins meters þykkt snjólag sem var fyrir).
Sól, sól skín á mig!

Sól, sól skín á mig!

Flott úrval af brekkum fyrir byrjendur og lengra komna (nr. 15 og 17 áberandi erfiðastar).
Skemmtielgurinn sáttur við brekkurnar.

Skemmtielgurinn sáttur við brekkurnar.

Sérlega skemmtilegt að finna grilllykt í stólalyftunni þegar hæsti toppurinn nálgaðist, þar sem grillað var í góða veðrinu.
Skíðakappar við grillið

Skíðakappar við grillið


Það verður áhugavert að vakna á morgun og athuga hvort lappirnar fallist á að halda manni uppi, þær þykjast vera eitthvað þreyttar þessa stundina.

Dagur 162

Ég undirbjó mig andlega fyrir kuldann á bókasafninu og var tilbúin að sitja þar í allan dag, en róninn sem settist við hliðina á mér, fór úr skónum og sokkunum og lagði þá til þerris á töskuna sína meðan hann las blöðin fór alveg með þetta. Lyktin var ólýsanleg. Þú vinnur róni, þú vinnur. Bókasafnið er þitt törf.

(Ég vildi ekki einu sinni kvarta því það er hræðilega kalt úti og hver vill vera í blautum sokkum í frosti? Maður verður að bjarga sér, og verst af öllu að deyja úr ráðaleysi segir hún mamma alltaf.)

Dagur 161

Ég er ennþá að plokka gel úr naflanum á mér eftir 20 vikna sónarinn sem var í dag. Neminn sem sá um okkur til að byrja með er greinilega á því að lykillinn að skýrri sónarmynd sé ca. ein og hálf fata af geljukki, enda sáum við allt skýrt og greinilega. Ungi litli var spriklandi hress, og voða lítið risaeðlulegur í þetta sinn. Nýr áætlaður lendingartími 12. júlí. Mikil gleði.

Dagur 160

Meistararitgerð #1 var skilað í gærkvöldi og var haldið upp á það í dag með því að njóta kvölds án heimavinnu, fara út að borða og í bíó. Fórum á lítinn ítalskan veitingastað hér í hverfinu sem reyndist bjóða upp á prýðilegan mat, og hlógum okkur máttlaus yfir Tangled. Vísindaleg rannsókn sýnir að við sjáum bæði tvö sænska þrívídd.

Sérlega ánægjulegt allt saman.