Dagur 210

Nokkrir hápunktar landsleiksins milli heimamanna og Moldavíu;

Leikurinn að hefjast

Leikurinn að hefjast

  • Zlatan stóð sig eins og hetja og lét verja frá sér víti, en bætti upp fyrir það skömmu síðar með því að dúndra boltanum í andlitið á dómaranum sem rétt náði að bera fyrir sig hendurnar
  • Alejandro hrópaði “Zlatan you suck!” eftir að vítið var varið, sem fékk þrjá 12 ára drengi sem sátu fyrir framan okkur til að snúa sér við með skelfingarsvip, þeir hreinlega ætluðu ekki að trúa því að einhver hefði talað illa um goðið þeirra
  • Áhorfendur voru rúmlega 25 þúsund, þar af 12 Moldavíubúar. Þeir voru snyrtilega afgirtir frá öðrum áhorfendum og látnir dúsa úti í horni, með fylkingu öryggisvarða í endurskinsvestum á landamærunum. Öryggisverðirnir voru fleiri en Moldavíubúarnir.
  • Molbúarnir afklæddust (að ofan) þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum og dönsuðu trylltan stríðsdans, þrátt fyrir að vera að tapa 2:0. Gjörsamlega misstu sig þegar Moldavía minnkaði muninn í 2:1 í uppbótartíma og æddu í átt að skelfdum öryggisvörðunum.

Skemmtilegur leikur, gaman að vera á staðnum.

Dagur 209

Maggi fékk þrjá boðsmiða á tónleika með Friðriki Ómari þegar hann fór í sendiráðið í gær með útrunna vegabréfið sitt. Hann bauð okkur Hörpu með sér og ekkert okkar var sérlega spennt, en við ákváðum nú samt að drífa okkur því það þýðir ekki að nöldra yfir því að Íslendingasamfélagið hérna sé óvirkt og mæta svo ekki sjálfur þegar eitthvað er að gerast.
Tónleikarnir komu okkur öllum skemmtilega á óvart. Ég bara vissi hreinlega ekki að Friðrik Ómar væri svona góður söngvari, og svo var hann að syngja svo mikla klassíkera að það var ekki annað hægt en að dilla sér í sætinu og vera hress. Meira að segja ungi dillaði sér (en bara við Robbie Williams og Queen).
Við vorum rétt komin inn í salinn og sest þegar ég sá stæðilegan Svía í pólóbol ganga inn. Hann var meðalmaður á hæð, en bætti góðum 5 sentimetrum við það með þessari fínu býkúpugreiðslu sem hann var búinn að dunda sér við að móta úr ljósu lokkunum. Um leið og ég sá hann vissi ég að þarna væri kominn maðurinn sem sæti beint fyrir framan mig, og það stóðst að sjálfsögðu. Þessir sentimetrar af hári voru akkúrat það sem mig vantaði uppá til að sjá á sviðið, og ég var hvað eftir annað komin að því að fletja ósköpin út með lófanum, eða skipta snyrtilega í miðju og búa þannig til lítið skarð sem ég sæi í gegnum. Ég stóðst freistinguna, en naumlega, og býkúpumaðurinn fékk að fara alveg jafn flöffí og fínn heim eins og þegar hann mætti. Live and let live og allt það.

Í morgun fórum við í mæðratékk og við ungi fengum fulla skoðun (Maggi á hinsvegar að borða aðeins meira, hann er undir kúrfunni sinni). Ég reyndist vera bæði með blóðþrýsting og blóðsykur, og unginn með hjartslátt, sem mér skilst að sé allt af hinu góða. Go team!

Dagur 207

Ansi strembið og allt of langt (miðað við gefinn tíma) lokapróf að baki, verður skrautlegt að sjá hvað kemur út úr því. Til að halda upp á þennan áfanga fór bekkurinn saman út að borða á Vapiano á Gamla Stan, og hlýtur sá staður titilinn besta pizza í Stokkhólmi (enn sem komið er). Eftir matinn tókst mér að plata hópinn með mér á Johan & Nyström kaffihúsið þar sem við enduðum á því að sitja og spjalla í einhverja tvo tíma. Sérlega prýðilegur dagur, eftir að prófinu lauk – allir sama sinnis hvað það varðaði.

Nú er það beint í bælið, finnst ákveðinn skortur á svefni sem stendur.

Dagur 206

Nú hafa verið keyptir miðar heim til Íslands 5. júní. Niðurtalning er hafin (70), en ég hef á tilfinningunni að tíminn verði fljótur að líða. Í millitíðinni fer Maggi í útskriftarsiglingu til Eistlands, við förum til Köben á fjölskyldufund og til Frakklands í rómó túristaferð. Ég er búin að heimta allavega eina ferð á Skansen þegar Lill-Skansen opnar í vor, einhverjir gestir eru á dagatalinu og svo tekur líka tíma að spóka sig í góða veðrinu sem við bara hljótum að fá eftir þennan óþarflega viðskotailla vetur. Við gætum þurft að fórna skólanum til að sinna þessu öllu saman.

Í ungafréttum er það helst að mig grunar að hann sé að stækka hraðar en ég þessa dagana, því mér líður svolítið eins og ég sé að springa á saumunum. Ég fóðraði hann samviskusamlega á hnetusmjörsemmogemmi meðan ég var í heimaprófinu um helgina, og hann varð alveg tjúll. Ég vona að það sé af því honum finnist það sérstaklega agalegt, ég vil ekki þurfa að slást við fleiri um það. Það er alveg nógu erfitt að ná því úr krumlunum á Magga.

Ég myndi segja fréttir af Magga en það hefur ekkert spurst til hans um helgina. Ég hef grun um að hann komi í leitirnar eftir stóra prófið á morgun svo ég hef engar sérstakar áhyggjur.

Dagur 204

Í dag er sænskur vöffludagur. Við erum ekki búin að búa hér heilt ár, en þetta er samt þriðji þemadagurinn helgaður bakkelsi sem við er otað að okkur. Eftir að hafa fagnað bæði kanelsnúðadegi og bolludegi með pompi og prakt er okkur farið að líða svolítið eins og Svíinn sé að fífla okkur (sérstaklega eftir að við sáum að þeir setja lax og rækjur á vöfflurnar sínar), svo við gáfum deginum bara fingurinn og héldum áfram próflestri.

Við afrekuðum líka að skrá okkur á námskeið þar sem ég mun læra að koma unganum í heiminn á friðsælan og dömulegan hátt eins og lótusblómið sem ég er, og Maggi mun læra að halda goggi og vera ekki til leiðinda meðan á fæðingu stendur. Og eitthvað um öndun og fæðingarstellingar og stöff.

Dagur 203

Á ég að hafa áhyggjur af því að þurfa að elda hafragraut í tveimur pottum, annan með hörfræum og hinn án, því Maggi getur ekki kyngt hörfræum ótuggðum og fellur í páfagaukatrans við álagið? Ætli hann sé dottinn úr ábyrgð..?

Dagur 202

Við erum bæði í prófastússi þessa dagana, en virðumst nálgast það á sitt hvorn mátann. Þegar ég rölti inn í svefnherbergi til að kyssa frúna bless á leið minni út í lesbás (les: kaffihús) var hún búin að breyta rúminu okkar í litla skrifstofu með öllu tilheyrandi.

Unnur á skrifstofunni, í miðju conference call

Unnur á skrifstofunni, í miðju conference call

Takið eftir smáatriðunum, eins og litla skiltinu með nafninu hennar. Hún er fagmaður, það verður ekki af henni tekið.

Dagur 201

Í dag er Bumbumyndadagur, einnig þekktur sem Þriðjudagur í mörgum vanþróuðum löndum.

Unnur sæt að vanda

Unnur sæt að vanda

Maggi fékk Tígra!

Maggi fékk Tígra!

Flatkökur með hangikjöti í útlandinu, stórkostlegt!

Flatkökur með hangikjöti í útlandinu, stórkostlegt!