Dagur 200

Þeim merka degi 200 í Svíaveldi var eytt í að útrétta og læra. Maggi gerði flatbrauði með hangikjöti góð skil, og lofaði endurkomu bragðskynsins enn og aftur. Það stefnir svo í sérlega líflega viku, hvað þá hér á blogginu, því ég fæ heimapróf á morgun sem ég á að skila á mánudaginn eftir viku, sama dag og Maggi fer í lokapróf úr sínu prógrammi (og á þá bara eftir seinni meistararitgerðina). Mér fannst rétt að vara ykkur við.

Dagur 199

Frábært veður í dag kallaði á göngutúr. Sáum kött í jakka (en engum stígvélum), dádýr og uglur.

Dádýr í fjarska

Dádýr í fjarska

Hressar uglur

Hressar uglur


Dagur 198

Í dag fórum við í könnunarleiðangur um Stokkhólm, í þeirri von að finna áður óþekkta frumskóga og frumstæð menningarsamfélög. Fyrst lá leið til Telefonplan, sem okkur rámaði eitthvað í að hafa heyrt lýst sem hipp og kúl stað.

Telefonplan

Telefonplan

Telefonplan torgið

Telefonplan torgið

Eftir að hafa hugsað málið vorum við nokkuð viss um að hafa heyrt Telefonplan lýst sem stað sem var hipp og kúl fyrir 10-20 árum síðan. Aðeins of sein á svæðið, partýið búið og allir farnir heim. Nú til dags er víst Listaháskóli þarna, sem gæti útskýrt fuglalífið sem við sáum.
Sænskur Bláfugl

Sænskur Bláfugl

Gleraugnagaukur

Gleraugnagaukur

Snúrutísla

Snúrutísla

Brotlönd í runnahreiðri

Brotlönd í runnahreiðri

Listaspírur og fuglaskoðarar, eða áhugamenn um Angry Birds, ættu að geta fundið hamingjuna á Telefonplan.

Á leiðinni heim gerðum við merka uppgötvun; fundum Johan & Nyström, og fengum besta kaffibolla Stokkhólms og afspyrnugóðan bolla af Chai-te latte! Mikil hamingja, þurfum að kanna þetta nánar við tækifæri.

Dagur 197

Það virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis hérna úti þar sem ég man greinilega eftir því að hafa óskað eftir hlýnandi veðri og sólskini, en í dag hefur kyngt niður snjó líkt og einhver sé að fá borgað fyrir það. Hef Svíana grunaða um mikla spillingu innan veðurfræðingastéttarinnar.
Þeir lofa okkur reyndar gulli og grænum skógum í formi rauðra daga eins langt og veðurspáin nær, en eftir daginn í dag treysti ég þeim ekki fyrir horn!

Dagur 196

Mikil gleði á heimilinu. Maggi er kominn með bragðskynið aftur, og til að fagna fékk hann í gær afganginn af íslenska hryggnum sem hann fann ekki bragð af í fyrra skiptið, og í kvöld gæddi hann sér á íslenskum puslum.

Glaður puslaður skemmtielgur

Glaður puslaður skemmtielgur

Við erum stórkostlega vel stödd í góðgætisdeildinni eftir gestkomuna, engin hætta á að ungi litli verði ekki feitur og fínn!

Dagur 193

Íbúðin er ansi tómleg eftir að gestirnir okkar góðu fóru aftur til Íslands í morgun. Það var alveg frábært að hafa þær, þó Maggi sé sennilega búinn að þróa með sér bráðaofnæmi fyrir tengdamömmu sinni, hann varð hundlasinn daginn sem þær komu, og er að skríða saman akkúrat í dag. Það hafði þó sína kosti fyrir hann að vera lasinn þessa daga, eyrun á honum slökktu á sér daginn sem konurnar mættu og hann fór ekki að heyra almennilega aftur fyrr en í gær, og varð þá steinhissa á látunum. Hefur sennilega bjargað geðheilsunni. Þar sem Maggi var úr leik og ég gleymi alltaf að taka myndir, þá fékk ég að ræna myndum frá Ellu frænku.

Það var gengið í góða veðrinu

Það var gengið í góða veðrinu

Krípi barnastytta hverfisins vakti athygli

Krípi barnastytta hverfisins vakti athygli

Mæðgur og skrýtið tré

Mæðgur og skrýtið tré

Afmælisbarnið að opna gjafir yfir morgunkaffinu

Afmælisbarnið að opna gjafir yfir morgunkaffinu

Hefðbundin "fyrirutanhúsiðmitt" mynd

Hefðbundin "fyrirutanhúsiðmitt" mynd

Ferjaði systurnar í menningarferð í miðbæinn og missti þær beint inn í Ginu Tricot

Ferjaði systurnar í menningarferð í miðbæinn og missti þær beint inn í Ginu Tricot

Verðir með potta á hausnum marsera fyrir utan konungshöllina, á meðan 5 gröfur moka snjó úr þessum skafli og dreifa honum jafnt í hallarinnkeyrslunni (?)

Verðir með potta á hausnum marsera fyrir utan konungshöllina, á meðan 5 gröfur moka snjó úr þessum skafli og dreifa honum jafnt í hallarinnkeyrslunni (?)

Sætt kaffihús á Djurgården þar sem við afþíddum okkur

Sætt kaffihús á Djurgården þar sem við afþíddum okkur

Frænkur inni á kaffihúsinu

Frænkur inni á kaffihúsinu

Heimsborgarasystur í lest

Heimsborgarasystur í lest

Sem betur fer er margt skemmtilegt á dagskránni næstu vikur og mánuði, svo ég veit að ég þarf ekki að sakna þeirra lengi. Það verður komið sumar áður en ég veit af, og við mætt til Íslands. Nú styttist í að við hittum allt klanið hans Magga í Köben, og þá verður orðið stutt í Frakkland og svo tekur því varla að taka upp úr töskunum fyrir heimferð!

Dagur 191

Við kvenfólkið skottuðumst um hverfið í dag, tókum myndir og dáðumst að því hvað sænskur snjór er merkilega líkur þeim íslenska. Dádýr og íkornar höfðu hinsvegar vit á að halda sig fjarri. Við ættum kannski ekki að vera hissa á að sjá ekki mörg villt dýr þegar við förum um svona eins og stormsveipar. Fallegur dagur fyrir rölt, sól og sæmilega lygnt, en aðeins kaldara en dömurnar pöntuðu. Þá er nú gott að mollið er hlýtt, og snickers kaffið sérstaklega endurnærandi.

Unginn sparkaði í ömmu sína og fékk forláta náttgalla að launum. Svo var eldaður íslenskur lambahryggur með Ora grænum baunum (gestirnir komu færandi hendi) og búðingur á eftir, og nú liggja allir hamingjusamlega afvelta (nema Maggi sem ég held að sé aðallega í hitamóki og minna afvelta af ofáti þar sem hann er ekki enn búinn að fá bragðskynið og grét yfir því söltum tárum ofaní búðinginn sinn. Eins gott að mamma kom með hrúgu!).