Dagur 240

Ræs í bítið til að útskrifast úr fæðingarfræðunum. Enginn blómaklútur með í þetta sinn, enda greinilega útbúnaður sem þarf að notast á ábyrgðarfullan hátt. Í dag var farið yfir allskonar nuddtækni sem Maggi á að æfa á mér, ég er mikill aðdáandi þessa heimanáms. Svo önduðum við meira, æfðum okkur að rembast, og Maggi fann toppinn á leginu á sér eftir þónokkra leit. Success! Heimaverkefnið fyrir tímann hafði verið að skrifa niður ýmislegt um draumafæðinguna, hverju maður hefði mestar áhyggjur af, búa sér til lítil markmið osfrv. Gott stöff. Svo áttum við að ræða það í tímanum í dag skildist okkur, og hún byrjaði á að láta okkur Magga deila okkar leyndustu hugsunum með hópnum. Við gerðum það samviskusamlega eins og heimavinnunördarnir sem við erum, og þegar við vorum búin og hún búin að kommenta á herlegheitin, mjög hjálplega, þá fannst henni nóg komið og enginn annar fékk að deila sínu heimanámi með hópnum. Mér fannst ögn vandræðalegt að vera fólkið sem hellti úr skálum hjarta síns þegar enginn annar gerði það sama, svona virkar eiginlega ekki sem hópefli nema allir deili einhverju frá sér, annars eruð þið bara fólkið sem allir hinir vita aaaðeins of mikið um. En við útskrifuðumust nú öll, og mikil gleði á heimilinu með þetta námskeið, kennarinn var svo mikið endemis krútt að við hefðum tekið hana með okkur heim hefði hún ekki verið töluvert sterkari en hún leit út fyrir að vera…

Því sem eftir lifði dags eyddum við á röltinu með Örnu og Bjarka, einn af þessum ótrúlega indælu dögum í Stokkhólmi þegar maður bara ráfar um stefnulaust, blaðrar, borðar, tekur myndir og hlær að dúfum. (Sérstaklega dúfunni sem hélt að tjörnin á Kungsträdgården væri stétt því það sást ekki í vatn fyrir kirsuberjablómum. Missti algjörlega kúlið við að lenda á vatninu, fyrir framan alla, panika lúðalega yfir skorti á fótfestu, koma sér með skrautlegum tilþrifum á þurrt land og horfa svo flóttalega í kringum sig, svekkt að sjá myndavélina hans Magga. Dúfulúði.)

Dagur 239

Viðburðaríkur dagur. Við byrjuðum hann á að fara í mæðraskoðun þar sem ungi fékk meðal annars sitt fyrsta vottorð, um að hann megi ferðast til Frakklands í næstu viku. Allt eins og það á að vera annars, og pjakkur virðist meira að segja búinn að finna það út að hann eigi að snúa höfði niður og stéli upp. Mér til mikillar gleði því þá er auðveldara að finna hann sparka, uppáhaldshobbíið mitt þessa dagana.

Svo seinnipartinn héldum við galvösk á Profylax-fæðingarnámskeiðið okkar, þar sem mættu okkar sjónvarpsmyndavélar og míkrafónar. Einhver sjónvarpsstöðin  hafði fengið leyfi til að taka herlegheitin upp og nota í þátt um fæðingarundirbúning. Gott og vel. Áður en námskeiðið byrjaði kom sjónvarpsfólkið til okkar Magga og spurði hvort við værum til í að koma í stutt viðtal um námskeiðið og væntingarnar til fæðingarinnar og svona. Ég sagðist ekki treysta mér til að svara á sænsku, og afþakkaði pent. Þá tóku þau bara ekki viðtal við neinn, sem við skildum þannig að við værum langsamlega áhugaverðasta parið á staðnum og enginn annar myndi gera sama gagn. Ég spjallaði við kennarann fyrir tímann og sagði henni að sænskan mín væri ennþá í þróun, og ég myndi kannski ekki skilja hvert einasta orð, en þá myndi ég bara spyrja hana útí það eftir tímann. Hún sýndi því mikinn skilning. Þar til hana vantaði tilraunagrís til að sýna öndunaræfingar og nuddtækni og annað fyrir framan alla, að myndavélunum meðtöldum. Í bæði skiptin sem hún á annað borð þurfti tilraunagrís var það ég sem varð fyrir valinu, eina manneskjan á staðnum sem yfirlýst var ekki alveg með á nótunum. Ég sagði Magga þegar við mættum að ég hefði sett á mig blómaklút sérstaklega til að virka vinaleg, og það hefur greinilega haft aðeins of sterk áhrif. Mæti blómaklútslaus á seinni hlutann á morgun. En þetta blessaðist allt, Maggi segir að samkvæmt kennaranum hafi ég “andað eins og gyðja”, en ég missti af því þar sem ég upptekin við að panika yfir tilraunagríss-ástandinu. Maggi fékk að klípa mig að vild (“helst í innanvert lærið, það er verst!”) svo ég gæti æft mig að anda gegnum sársauka, og svo komst ég að því að ég er ömurlega léleg í slökunaræfingum á meðan Maggi gæti sennilega tekið að sér að kenna þann hluta námskeiðsins (rétt upp hönd sem er hissa).

Að námskeiðinu loknu hittum við Örnu og Bjarka ásamt sænskum vini þeirra og eyddum kvöldinu í hlátur og át á ágætum indverskum veitingastað. Agalega gaman að blaðra svona á íslensku, meiriháttar að hafa þau á staðnum.

Nú eigum við ennþá eftir að vinna heilmikla heimavinnu fyrir næsta profylax-tíma, sem er strax í fyrramálið. Það er engin miskunn í þessum fæðingarfræðslubransa.

Dagur 238

Ég er ekki ennþá búin að jafna mig á því þegar köngulóin datt úr hárinu á mér og ofaní töskuna mína í lestinni í dag. Mér til hróss þá tókst mér að panika bara inní mér, alveg án þess að dansa venjulega köngulóadansinn minn um alla lest. Mér til ennþá meira hróss þá tókst mér að ná köngulónni uppúr töskunni án þess að hún yrði fyrir neinum líkamlegum né, að því er virtist, andlegum skaða. Ég ætla hinsvegar héðan í frá að ganga bæði með hárnet og sundhettu, just in case.

Annars leikur mér forvitni á að vita hversu margir voru búnir að mæta mér með köngulóna Á HAUSNUM án þess að detta í hug að segja mér það. Ég var nýkomin af troðinni lestarstöð. Hvar er náungakærleikurinn? (Samt sennilega eins gott. Ef einhver hefði sagt við mig setninguna “Afsakið fröken, en þér eruð með könguló á höfðinu” þá hefði ég 100% dansað köngulóadansinn fyrir samferðafólk mitt).

Dagur 237

Þetta er búinn að vera mjög óþægilegur dagur því í gærkvöldi byrjaði mér að vera illt í “hægra lunganu” (eða rifbeinunum, eða einhverju öðru sem er þarna undir hægri búbbu) og núna get ég ekki ennþá dregið andann nema svona hálfa leið. Það er mjög frústrerandi þegar maður er alltaf móður, og þegar maður þarf að geispa/hnerra/sofa. Það var ekki mikið sofið í nótt því það er vont að liggja, og stefnir í eitthvað svipað í nótt sýnist mér. Ég var voða samviskusöm og hringdi í mæðraverndina mína (ca. 50 metra frá húsinu mínu) í morgun til að spyrja útí þetta, en konan sem svaraði í símann sagði mér að hringja á fæðingardeildina frekar (í hinum enda borgarinnar). Mér fannst það asnalegt ráð svo ég hunsaði það. Ég fór í staðinn á Google og rannsakaði vísindalega hvað gæti verið að mér. Niðurstaða: Með samanfallið lunga, einhvers konar gallblöðrukrísu og allavega 18 tegundir af krabbameinum og gigtum er ólíklegt að ég lifi nóttina af.

Dagur 236

Vikurnar orðnar 29 og nú er búið að panta barnavagn!

Bumban stækkar með hverri vikunni

Bumban stækkar með hverri vikunni

Maggi vill vera með

Maggi vill vera með

Vagninn góði

Vagninn góði

Vagninn góði II

Vagninn góði II

Dagur 235

Í dag fórum við í ævintýraferð til Digital Art Center þar sem við sáum ýmislegt skemmtilegt. Spiluðum Mindball, sem gengur út á það að slaka á – stórkostleg hugmynd. Unnur vill meina að ég sé burkni eftir að við spiluðum, sem er augljóslega bara öfundsýki. Krakkarnir léku sér á hljóð-klifurvegg, og Maggi brotlenti flughermi ítrekað. Eftir DAC var haldið til Beggu og Ingólfs í páskakaffi.

Unnur í páskasólinni

Unnur í páskasólinni

Hilmir í Mindball

Hilmir í Mindball

Kolbrún - óumdeildur Mindballmeistari

Kolbrún - óumdeildur Mindballmeistari

Hrökkbrauðsplötuspilari

Hrökkbrauðsplötuspilari

Hilmir - sem brotlenti aldrei

Hilmir - sem brotlenti aldrei

Hilmir og Kolbrún við hljóð-klifurvegginn

Hilmir og Kolbrún við hljóð-klifurvegginn

Ingólfur Arnar Stangeland

Ingólfur Arnar Stangeland

Hilmir Viktor og Kolbrún

Hilmir Viktor og Kolbrún

Gómsæt eplakaka

Gómsæt eplakaka

Páskakaffi hjá Beggu og Ingó

Páskakaffi hjá Beggu og Ingó

Valtýr Karl var hress að vanda

Valtýr Karl var hress að vanda

Bergljót Björk Halldórsdóttir

Bergljót Björk Halldórsdóttir

Dagur 234

Maggi var svo spenntur yfir páskunum að hann glaðvaknaði og stökk á fætur um sexleytið í morgun. Ég svaf það af mér, en ímynda mér að góðri stund hafi verið eytt í vonlausa páskaeggjaleit í íbúðinni… Það var allavega vonsvikinn og súkkulaðifrír Maggi sem mætti mér þegar ég loksins skreið á fætur einhverjum klukkustundum síðar. (Note to self: Skaffa páskaegg og fela á næsta ári. Stórt.)

Af því við berum greinilega enga virðingu fyrir stórhátíðum var deginum eytt í að þvo þvott, laga til og skipta vetradóti út fyrir sumardót. Þar til yndislega glampandi sólskinið úti kallaði á okkur og ég frumsýndi hvíta vetrarleggi í stuttbuxum í Svíþjóð, meðan Maggi tók myndir af páskaskrautinu í hverfinu.

Umrætt páskaskraut

Umrætt páskaskraut

Umrætt páskaskraut 2.0

Umrætt páskaskraut 2.0

Hitinn úti var greinilega of mikið fyrir viðkvæma blómið sem ég er, því ég gat ómögulega haldið mér vakandi þar sem eftir lifði dags, og mátti ekki vera kyrr neinsstaðar í meira en 30 sekúndur án þess að missa meðvitund. Magga fannst það voða fyndið (þar til hann uppgötvaði slefblettina því ég var yfirleitt með höfuðið í kjöltunni á honum þegar ég datt útaf). Nú eigum við að vera í páskapartýi en ég neita að fara í buxur (of heitt fyrir svoleiðis formlegheit!) og Maggi neitar að fara með mig út svona buxnalausa og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Dagur 232

Kaupmannahöfn, dagur þrjú.

Circus Teater

Circus Teater

Nytorv við Strøget

Nytorv við Strøget

Vor Frue Kirke og gamla háskólabyggingin

Vor Frue Kirke og gamla háskólabyggingin

Gamli háskólinn

Gamli háskólinn

Vegg- og loftmyndir í andyri gamla háskólans

Vegg- og loftmyndir í andyri gamla háskólans

Innviði Vor Frue Kirke

Innviði Vor Frue Kirke

Fyrir utan Vor Frue Kirke

Fyrir utan Vor Frue Kirke

Rundtaarn

Rundtaarn

Flugfíll!

Flugfíll!

Nördahúmor

Nördahúmor

Friðrik fann nammibúð

Friðrik fann nammibúð

Hann eignaðist líka nýja vini

Hann eignaðist líka nýja vini

Fórum í ísleiðangur

Fórum í ísleiðangur

Nom nom nom!

Nom nom nom!

Sylvía fékk sér

Sylvía fékk sér

Elísabet fékk ís hjá Kristjáni

Elísabet fékk ís hjá Kristjáni

Pabbi og Snorri hressir

Pabbi og Snorri hressir

Lestarstöðin í ferðalok

Lestarstöðin í ferðalok

Dagur 231

Fórum í Hagaparken í dag.

Unnur stakk mig af.

Unnur stakk mig af.

Sáum smáfugla

Sáum smáfugla

Sáum sumarið nálgast

Sáum sumarið nálgast

Sáum Ekotemplet

Sáum Ekotemplet

Unnur stakk mig af, aftur.

Unnur stakk mig af, aftur.

Sáum önd með bláan gogg!

Sáum önd með bláan gogg!

Unni finnst tvöfaldur andarass fyndinn.

Unni finnst tvöfaldur andarass fyndinn.

Páskablómin eru farin að blómstra.

Páskablómin eru farin að blómstra.