Þriðjudagur 31. maí 2011

Magga er að takast að sigra þessa meistararitgerð sína, og ekki seinna vænna því það bíða hans allskonar flutningatengd verkefni sem ég hef ákveðið að ég “treysti mér ekki til” að vinna sjálf. (Patent þessi ólétta stundum.) Það stefnir í að hann klári bara í kvöld eða á morgun, svo það verður vonandi mjög glaður Maggi sem bloggar annað kvöld.

Ég byrjaði í heimaprófi í dag sem stendur fram á föstudag, og hélt uppá það með því að skera mig á skrúfblýanti í töskunni minni í lok síðasta fyrirlestursins. Stoltið var svo sært að ég sagði ekki orð um málið, faldi bara blóðuga hendina inní ermi og átti hjartnæma kveðjustund með bekknum áður en ég fór loksins og læsti mig inná klósetti til að gera að sárum mínum. Ég held það sé ekki til minna töff leið til að fara sér að voða. (Mér sýnist ég muni samt halda hendinni, í þetta sinn.)

Unginn fagnar 34ra vikna þroska í dag, og var myndaður frá ýmsum miður frumlegum sjónarhornum af því tilefni. Hann er mjög sprækur, en aðrir heimilismeðlimir eitthvað minna ferskir í ritgerðar- og prófstússinu.

Maggi ringlaður eftir hálfan sólarhring á bókó

Maggi ringlaður eftir hálfan sólarhring á bókó

Pökkunarbumban framan frá

Pökkunarbumban framan frá

Pökkunarbumban frá hlið

Pökkunarbumban frá hlið

Mánudagur 30. maí 2011

Ég er opinberlega orðin uppiskroppa með pláss, og unginn fær ekki leyfi til að stækka meira nema með því skilyrði að hann teygi ekki úr sér fyrr en eftir fæðingu. Stækka í hnipri bara, það má. Maður hefði náttúrulega átt að sýna smá fyrirhyggju og vera búinn að láta rýma aðeins til, kippa út allskonar kirtlum, einu nýra, og svo botnlanganum (sem var tekinn 2003 en ég hef alltaf grunaðan um að hafa vaxið aftur). Auðvelt að vera vitur eftir á.

Sunnudagur 29. maí 2011

Við Wallander þvoðum veggi og hurðir meðan Maggi skrifaði. Ég verð voða glöð þegar hann klárar þessa ritgerð, þó ekki sé nema bara vegna þess að ég er orðin ferlega spennt að sjá restina af Frakklandsmyndunum, sem er víst ekki mikill tími til að vinna samhliða meistararitgerð.

Vika í Ísland og við að verða búin að borða samviskusamlega úr öllum skápum. Í dag tók ég til í frystinum og komst að því að Maggi er búinn að vera að frysta samviskusamlega alla brauðenda sem okkur hafa áskotnast í vetur (samkvæmt mínum útreikningum ekki færri en milljón brauðendar). Ég spurði hann spennt hvað hann ætlaði að gera við þetta safn sitt, en þá yppti hann öxlum og sagði að það mætti henda þessu bara. Ég veit ekki hvað ég á að halda um hann stundum.

Laugardagur 28. maí 2011

Laugardagur í miðbænum; Unnur þræddi verslanir í leit að fötum á sig og unga litla á meðan Maggi fann kaffihús í ævintýralegum kjallara og vann í ritgerðinni. Unnur fékk að kaupa sér nammi á leiðinni heim, sem virðist hafa verið mistök þar sem hún var greinilega mjög æst af öllum þessum sykri og heimtaði að sýna mér prjónaðar legghlífar á (pirraða) ketti, prjónuð sjöl á (hissa) kjúklinga og annað í þeim dúr. Það hefði svo sem verið allt í lagi ef tímasetningin hefði ekki verið “á meðan Maggi horfir á úrslitaleik Meistaradeildarinnar”.

Er farinn að halda að Unnur sjái fram í tímann og viti hvenær liðin eru alveg að fara að skora, hún var að minnsta kosti ansi nösk á að finna eitthvað nýtt prjónatengt til að deila með mér akkúrat í þann mund þegar fyrstu tvö mörkin komu.

Erfitt líf, erfitt líf.

Föstudagur 27. maí 2011

Ungi litli var metinn sem eintak í sérlega góðu ástandi í mæðraskoðun dagsins, þótt hann hafi verið pirraður út í ljósmóðurina þegar leitað var að hjartslætti. Kalt krem á bumbuna eldsnemma um morguninn og eigin hjartsláttur gegnum hátalarakerfi varð til þess að hann sparkaði svona líka hressilega í ljósmóðurina – sem brá svo mikið að hún hrökk til.

Skil ekki hvaðan drengurinn hefur þetta. Hlýtur að vera úr móðurættinni, faðirinn hefur alltaf verið þekktur sem mikil morgunpersóna. *hóst*

Fimmtudagur 26. maí 2011

10 dagar í að við förum til Íslands. Það er allt svona hálf-gert á heimilinu eins og er, íbúðin hálfpökkuð, ritgerð hálfskrifuð, kúrs hálfkláraður, íbúð hálfþrifin, við hálf farin heim en samt hálf ennþá í Svíþjóð. Hálf-óþægileg staða, en nú styttist í að við getum klárað þessi verkefni bara og rokið upp í flugvél.

Maggi vinnur sleitulaust við að klára ritgerðina sína, og er búinn að koma sér upp skrifstofu á kaffihúsi í hverfinu. Þar er hann búinn að eigna sér hægindastól og ég kem iðulega að honum þar sem hann er farinn úr skónum og kominn með sokkaklæddar bífurnar uppá borð, agalega heimilislegt. Þetta greinilega virkar, því verkefnið snargengur hjá honum. Á meðan ég er meistararitgerðargrasekkja hef ég tekið upp á samviskulausu framhjáhaldi með Kurt Wallander. Hljóðbók númer þrjú er núna að rúlla í eyrunum, þá eru ennþá sjö eftir svo ég get liðið Magga það að dunda sér ögn lengur við skrifin.

Þriðjudagur 24. maí 2011

Sjálfhverfasta blogg vikunnar: Bumbumyndir! 33 vikur komnar í dag, og við bumban gætum ekki haft það betra. Maggi hinsvegar er á lokasprettinum í ritgerðarskrifum og hress eftir því. 12 dagar í heimferð, og 49 dagar í að bumban tæmist. Eins mikið og ég hlakka til fyrra tilefnisins, þá er ég ekki viss um að ég sé til í að hleypa unga litla út alveg svona fljótt. Það er svo huggulegt að hafa lítinn félaga með sér í skólanum, í strætó, í sófanum, svona til að klappa og pota í. Sérstaklega þegar þessi litli félagi getur ekki verið með hávaða. Ég treysti bara á að það sé satt sem maður heyrir, að síðustu vikurnar verði svo óþægilegar að maður verði til í að gera um það bil hvað sem er til að hætta að vera óléttur. Eins og er finnst mér status quo bara ferlega fínn.

Maggi ljómar af gleði yfir ritgerðarskrifum

Maggi ljómar af gleði yfir ritgerðarskrifum

As promised: Kalkúnabuxur!

As promised: Kalkúnabuxur!

Hin hliðin á kalkúnabuxunum!

Hin hliðin á kalkúnabuxunum!

Bónus: Meiri kalkúnabuxur!

Bónus: Meiri kalkúnabuxur!

Mánudagur 23. maí 2011

Undirbúningur fyrir heimferð mjakast í rétta átt. Ritgerðaskrifin hjá Magga svífa áfram, á meðan ég pakka og hendi og gef til að reyna að rýma til fyrir leigusalann okkar í íbúðinni í sumar. Í dag tók ég reyndar stórt skref afturábak í því verkefni, stækkaði fatahrúgu heimilisins ööörlítið þegar ég lenti inn í H&M og hamstraði fyrir sumarið. Ég veit það næst að það er hættulegt að versla þá daga sem manni finnst maður óvenjulega sætur, ég stóðst sjálfa mig bara alls ekki í speglinum í mátunarklefanum. En ég get þá allavega hætt að tuða um að ég þurfi að fara nakin í giftingarveislu á 9. mánuði, nú hinsvegar verður fólk að bjóða mér í fleiri fínar veislur í júní svo ég geti notað kjólgopann oftar en einu sinni. Ég lenti reyndar líka heim með buxur sem mér finnst fáránlega skemmtilegar en Maggi lýsti með orðunum “uuu, mér finnst þú fínni en þessar buxur” (dipló leið til að segja “kalkúnabuxur, KALKÚNABUXUR!). Með smá heppni verð ég í þeim á bumbumyndum morgundagsins.

Sunnudagur 22. maí 2011

Ritgerðaskrif og heimanám í dag, með hæfilegum pásum til að hvíla hausana og gæta þess að jarðaberin skemmist ekki. Erfitt líf, stundum þarf að gera meira en gott þykir.

Styttist óðum í flugið heim, það er eins gott að þetta eldgos verði hætt fyrir þann tíma. Eins og það var nú fínt að neyðast til að taka sér aukalegan frídag í síðasta gosi (einmitt í Stokkhólmi líka) held ég að það sé komið gott, við séum búin að taka út okkar skammt af eldgosaveseni.