Miðvikudagur 22. júní 2011

Glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir því að bumbumynda-þriðjudagur var ekki haldinn heilagur að þessu sinni. Það kemur til af góðu, því við fórum í gærkvöldi í alvöru bumbumyndatöku, þar sem megaflinkur atvinnuljósmyndari sýndi bollunni þá virðingu sem hún á skilið. Það voru semsagt teknar fleiri myndir en nokkurn þriðjudag áður, og við munum pottþétt setja nokkrar hérna inn til að gleðja múginn, bara ekki alveg strax. Það á eftir að photosjoppa á mig sixpakkinn.

Laugardagur 18. júní 2011

36 vikna bumbumyndir voru teknar af því tilefni að við skötuhjúin höfðum okkur sæmilega til í fyrsta sinn síðan um jólin. Ekki annað hægt þegar fagna á útskrift, skírn og giftingu sama daginn, og það á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Ég rak mig á það enn og aftur að ég kann ekkert að gera sparilegt við hárið á mér, og eftir mikið gúgl reyndi ég að fylgja leiðbeiningum rússneskrar mátulega gærulegrar stúlku á jútúb. Ég bar árangurinn undir Magga, sem vildi meina að ég liti út eins og rússnesk gæra. Úberfeil. Ballerínuhnútur var það eina ferðina enn heillin, og ef einhver getur bent mér á auðvelda en sparilega hluti að gera við sítt hár þá eru öll ráð vel þegin í athugasemdakerfinu.

Mamma er farin að kalla mig Keikó. Lái henni hver sem vill.

Mamma er farin að kalla mig Keikó. Lái henni hver sem vill.

Maggi í mesta lagi eins og höfrungur.

Maggi í mesta lagi eins og höfrungur.

Engin rússnesk gæra hér.

Engin rússnesk gæra hér.

17. júní við fánastöngina. Heill sé íslensku þjóðinni.

17. júní við fánastöngina. Heill sé íslensku þjóðinni.

Sunnudagur 5. júní 2011

Ferðadagur!! Maggi hamast á ryksugunni, nú er allt að vera hreint og strokið, farangur kominn í töskur og við í startholunum. Skrýtið að fljúga svona seint, maður veit ekkert hvað maður á að gera eiginlega við þennan síðasta dag. Ég held það endi á því að við bara setjum bíómynd í gang þar til er kominn tími á að fara, enda bæði orðin frekar þreytt eftir hamaganginn þessa helgina. Við fórum aðeins yfir strikið í þrifum og skipulagningu, en mig grunar að við verðum þakklát fyrir það þegar við komum heim í haust. Ansi margir ruslapokar fengið að fjúka niður lúguna síðustu daga, merkilegt eiginlega hvað er samt mikið eftir sem þurfti að raða inní geymsluskápinn okkar. Magnaðir tetrishæfileikar Magga eru búnir að koma sér vel.

Ég veit ekkert hvað verður um þetta blogg þegar við erum komin til Íslands. Okkur er búið að finnast ótrúlega skemmtilegt í vetur að geta flett upp aftur í tímann hvað við höfum verið að bralla, svo sennilega reynum við að halda áfram að skrifa eitthvað bara fyrir framtíðarsjálfin okkar, þó allir sem við erum að skrifa fyrir verði nógu nálægt til að fá allar fréttir beint í æð.

Laugardagur 4. júní 2011

Hvaðan kom allt þetta dót sem er í íbúðinni eiginlega? Þrif og tiltekt leiðir í ljós ótrúlegt magn af fötum og öðru sem við erum löngu hætt að nota en hefur verið að taka upp pláss.
Meira vesenið að pakka, stefnir í ágætis yfirvigt – og það á leiðinni til Íslands! En það er sem betur fer ekki mikið eftir núna, og það styttist í fjölskyldu og vini. Svo ekki sé minnst á sundferðir, ís, allan góða matinn og sumarveð… 10°C lækkun. Hálf kjánalegt að hafa þraukað frostaveturinn mikla í Stokkhólmi til þess eins að fara aftur til Íslands um leið og sólin fer að skína, og hitamælirinn er farinn að sýna 20°C+ alla daga.

Föstudagur 3. júní 2011

Ég skilaði loksins heimaprófinu mínu í dag, og eftir smá tiltektarrassíu notuðum við föt sem þurftu að komast í Rauða krossinn sem afsökun til að skella okkur í sólina á Södermalm. Þar sátum við svo á bekk og horfðum hugfangin í klukkutíma á stelpu með kött í bandi. Við erum búin að sjá nokkra ketti í bandi síðustu mánuði, bæði hér í Stokkhólmi og í Frakklandi, og allir þessir kettir hafa litið út fyrir að vera sérlega kátir með ráðahaginn. Eftir að hafa einhvern tímann reynt að setja gömlu Kisu okkar í band og hún lá bara eins og skotin og lét draga sig á bakinu hélt ég að þetta væri vonlaust konsept, en þetta getur greinilega virkað fyrir suma. Skemmtilegt. Svo var haldið heim á leið að þrífa baðherbergi og eldhússkápa, og það fer nú bara að verða frekar lítið eftir til að þrífa á þessum 46fm, nema við ákveðum að trilla annan hring svona fyrst við erum að þessu.

Heim eftir tvo daga! Íslenskt vatn! Kúlusúkk! Fiskur! Saffran! Grænmeti! (Er í grænmetisbindindi að fyrirskipan ömmu vegna saurgerla-árásarinnar sem geisar á meginlandinu.)

Fimmtudagur 2. júní 2011

Uppgötvun dagsins: Það er kominn júní!! Hvernig getur það verið? Erum við viss um að maí hafi komið..?

Afrek dagsins: Steinsvaf í sófanum meðan Maggi þreif baðherbergið fyrir flutninga. Er dugleg.

Bömmer dagsins: Fæ mig ekki til að skila heimaprófinu ennþá. Aðskilnaðarkvíði. Verð að beita mig hörðu á morgun.