Föstudagur 18. nóvember 2011

Í morgun mættum við Íris nývaknaðar og ferskar í nudd á tælensku hverfisnuddstofunni. Nuddkonurnar tala hvorki sænsku né ensku, svo ég vona að við höfum skilið patið rétt sem “Farið úr öllu nema nærbuxunum” því annars vorum við fáránlega óviðeigandi kúnnar. Nuddið var æðislegt, þessar dömur vissu greinilega hvað þær voru að gera. Þetta verður örugglega ekki síðasta heimsóknin mín þangað (nema við höfum misskilið patið og ég sé ekki velkomin þangað aftur…).

Þegar heim var komið fórum við Maggi að undirbúa Idol-kvöld vikunnar, þar sem við ætluðum að bjóða uppá íslenskt lambalæri sem mamma færði okkur í haust. Við höfum hinsvegar aldrei eldað neitt svona fullorðins, og vorum í nettu kvíðakasti. Eftir skype-ráðstefnur með bæði mömmu minni og pabba Magga dembdum við okkur bara í verkið og það tókst glimrandi. Að vísu var matur kl. 22, en gestirnir sýndu því ótrúlega þolinmæði, mögulega af því við sáum þetta vandamál fyrir og sköffuðum nasl. Okkur tókst meira að segja að brúna kartöflur og búa til sósu úr kjötsoðinu! Það var enginn meira hissa en við sjálf. Kvöldið var frábært, það var réttur söngfugl sem fékk að fjúka úr Idolinu og Sigurjón leysti okkur að lokum öll út með tannverndandi gjöfum. Það gerist ekki mikið betra.

Sigurjón og Siggi í kósí

Sigurjón og Siggi í kósí

Lærið á leið inn í ofn (ég gleymdi að mynda það tilbúið, það var töluvert girnilegra þá...)

Lærið á leið inn í ofn (ég gleymdi að mynda það tilbúið, það var töluvert girnilegra þá...)

Siggi í nýja útigallanum á leið í matarbúðina (takk amma og afi!)

Siggi í nýja útigallanum á leið í matarbúðina (takk amma og afi!)

Fimmtudagur 17. nóvember 2011

Viðburðalítill fimmtudagur, ég var í skólanum allan daginn og strákarnir dunduðu sér heima. Þeir voru skuggalega sakleysislegir á svipinn þegar ég kom heim og púðarnir í sófanum óvenjulega flöffí. Ég ætla að skjóta á teppavirki í stofunni.

Blondína dagsins

Blondína dagsins

Miðvikudagur 16. nóvember 2011

Siggi er 4ra mánaða í dag. Hann veltir sér óvart og er alltaf jafn hissa, hlær innilega þegar pabbi hans lætur hann dansa við oldschool rapp/hipphopp/whothehellknows, vaknar kátur á hverjum morgni og helsta markmiðið virðist vera að koma einhvern daginn báðum hnefunum uppí sig í einu.

Ég er flutt að heiman að skrifa ritgerð, feðgarnir dúlla sér heima við að horfa á misgáfuleg myndbönd á youtube, og við erum öll orðin frekar skrautleg þar sem hér hefur ekki verið þveginn þvottur í þrjár vikur. Á morgun er það annaðhvort þvottahúsið eða H&M…

Afmælisstrákur

Afmælisstrákur

Til samanburðar: 2ja mánaða afmælisstrákur

Til samanburðar: 2ja mánaða afmælisstrákur

Þriðjudagur 15. nóvember 2011

Nýverið hefur svefnpoki verið tekinn í gagnið á heimilinu, Sigurði til mikillar skemmtunar. Foreldrasettið er hæstánægt með tilraunina þar sem við höfum öll þrjú sofið gegnum nóttina í einum dúr (7-9-13) síðustu nætur.

Sigurður dagsins í svefnpoka

Sigurður dagsins í svefnpoka

Mánudagur 14. nóvember 2011

Í dag fóru feðgarnir mínir í ungbarnaskoðun. Það var ekki alveg sársaukalaust, því við gleymdum henni þar til hálftíma áður en við áttum að mæta, svo þá þurfti að vekja barnið, skipta á honum, úr náttfötum í föt, í vagn og hlaupa svo á heilsugæslustöðina. Við missum eitt foreldraprik. Siggi hinsvegar stendur sig vel, hann er orðinn 64 cm að lengd og 7,3 kíló. Í tilefni þess að litla rækjan okkar er alls engin rækja lengur, þá eru hér nokkrar myndir síðan hann var meira kríli.

Strípalingar á spítalanum

Strípalingar á spítalanum

Steinsofandi á leið heim af spítalanum

Steinsofandi á leið heim af spítalanum

Mini-Siggi í fanginu á ljósmóðurinni okkar góðu

Mini-Siggi í fanginu á ljósmóðurinni okkar góðu

Mömmuknús

Mömmuknús

Pabbi að baða snúðinn sinn

Pabbi að baða snúðinn sinn

Samlokulúr

Samlokulúr

Glötuð þjónusta kæru foreldrar

Glötuð þjónusta kæru foreldrar

Í ömmufangi

Í ömmufangi

Meðan mamma nennti ennþá að prjóna á mig...

Meðan mamma nennti ennþá að prjóna á mig...

Sunnudagur 13. nóvember 2011

Í dag bauð Harpa Sif í kveðjukaffi, sem sammælst var um að væri jafnframt jólakaffi, þar sem hún flýgur til Íslands á morgun sökum verkefnis með landsliðinu. Sigurður þurfti mikið að tjá sig í kaffinu, eflaust hefur hann klagað foreldrasettið eitthvað og ræddi allt milli himins og jarðar við þau Sigurjón, Arnar og Írisi.

Sigurður dagsins kominn í náttfötin

Sigurður dagsins kominn í náttfötin

Laugardagur 12. nóvember 2011

Æsispennandi ævintýri dagsins var verslunarleiðangur í Willy’s stórmarkað ásamt Írisi og Arnari. Allir enn að jafna sig eftir matarævintýri Idol-kvöldsins svo við tókum restina af deginum í að hafa það náðugt. Hér er Sigurður dagsins, nýbaðaður og rjóður í vanga.

Nýbaðaðir puttar, nammi-namm!

Nýbaðaðir puttar, nammi-namm!

Föstudagur 11. nóvember 2011

Vel heppnað Idol-kvöld nýafstaðið hér á Kaupmannahafnargötunni. Við Maggi erum svo södd að við gætum neyðst til að sofa hérna á sófanum í nótt, ég veit ekki hvernig við ættum að komast á fætur… Við elduðum súpu og bökuðum bollur, Íris og Arnar komu með aðeins of djúsí og ljúffengan eftirrétt og Sigurjón skaffaði allskonar snarl og gúmmelaði. Ég öfundaði þau ekki að vera að fara að koma sér alla leið heim áðan með þetta alltsaman í maganum! Siggi hélt sér vakandi eins lengi og hann gat yfir keppninni, en sofnaði að lokum sitjandi í fanginu á mér, alveg sigraður. Hann á eftir að vera brjálaður þegar hann vaknar í fyrramálið og áttar sig á því að hann sofnaði í miðju teitinu…