Mánudagur 5. desember 2011

Dömurnar fóru í verslunarleiðangur í dag og við feðgarnir lögðum land undir fót til að gæta þess að þær færu sér ekki að voða. Miðbærinn er skemmtilega skreyttur og jólastemmning komin í mannskapinn.

Ljósadýr(ð) hjá turninum á Sergels torgi

Ljósadýr(ð) hjá turninum á Sergels torgi

Unnur passaði kaffibollann á meðan

Unnur passaði kaffibollann á meðan

Unnur sæt með húfuna sína

Unnur sæt með húfuna sína

Fengum smá snjókomu á Kungsträdgården.
Snjókoma!

Snjókoma!

Stærðarinnar jólatré á Gamla Stan

Stærðarinnar jólatré á Gamla Stan

Mæðgurnar sælar saman

Mæðgurnar sælar saman

Stytta á Gamla Stan

Stytta á Gamla Stan

Fórum á skemmtilegan jólamarkað á Gamla Stan þar sem keypt var jólaskraut og marsipan (sem lifði kvöldið rétt svo af).
Sælgæti á jólamarkaði

Sælgæti á jólamarkaði

Jólasveinar á jólamarkaði

Jólasveinar á jólamarkaði

Fallegar jólakúlur

Fallegar jólakúlur

Sunnudagur 4. desember 2011

Í dag fórum við mamma í Stockholm Quality Outlet í Barkarby og keyptum alveg heilan helling af jólagjöfum. Skynsamir Svíar versla greinilega þarna því það var stappað af fólki, en það jók eiginlega bara á jólastemmninguna. Hvar er meiri jólastemmning en í góðri sænskri röð? Myndavélin var ekki með í för, sem er miður því á staðnum var þessi líka myndarlega jólageit sem mamma var æst í að setjast á.

Maggi og Siggi voru mjög sorgmæddir að fá ekki að fara með að versla, ég held að sá eldri sé enn að jafna sig.

Föstudagur 2. desember 2011

Sigurður dagsins er frekar lítill í sér og þarf mömmuknús þar sem pabbi er að ryksuga. Ryksugan er ekki vinur manns. (Á því virðist reyndar vera dagamunur, en þetta var ekki góður dagur.)

Mömmuknús er gott stöff

Mömmuknús er gott stöff

Horfir á pabba eins og versta svikara

Horfir á pabba eins og versta svikara

Maður er lítill í sér

Maður er lítill í sér

Fimmtudagur 1. desember 2011

Í morgun fórum við Siggi úfin á fætur eitthvað að bralla, og það var ekki fyrr en klukkan hálfníu sem ég kíkti á stundaskrána mína og sá að ég átti að mæta níu en ekki tíu. Úps. Maggi var vakinn með “MAGGI!! ÉROFSEIN ÓMÆGAD VAKNAÐUGRÍPTU” og svo flaug Siggi af stað. Maggi er sem betur fer fljótur að hugsa. Ótrúlega þá varð ég ekki nema tíu mínútum of sein í skólann, en þá var ég líka búin að hlaupa tvo og hálfan kílómetra úr lestinni og bæði sveitt og móð þegar ég reif upp hurðina á stofunni svo dramatískt að allir þögnuðu og litu við.

Seinnipartinn fórum við að skoða miðstöð Rauða krossins fyrir flóttamenn sem hafa orðið fyrir pyntingum. Hún er stödd í stóru og háu húsi á Södermalm og ég var svo mikið að spjalla þegar við vorum leidd um húsið að miðstöðinni að ég tók ekkert eftir því hvernig við komumst þangað. Svo var heimsóknin búin og allir fóru heim, nema ég því ég þurfti að pissa. Þegar ég ætlaði að fara og kom út á stigagang, þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég ætti að komast út. Ég vildi ekki íþyngja pyntingafórnarlömbum með klípunni, svo ég ákvað að leita bara að útganginum sjálf. Ég var á þriðju hæð, þá var mjög lógískt að labba bara niður á neðstu hæð og voilà. Nema á neðstu hæðinni var ekkert nema völundarhús af læstum hurðum og ekki sálu að sjá, hvað þá útidyrahurð. Skrýtið að merkja hæð 1 og hafa engan útgang þar, en ókey, þá hlýtur að vera hægt að komast út á hæð 2. Nema þar var sama sagan, allt risastórt en tómt og læst og hvorki gluggi né útgangur í augsýn. Mér stóð orðið ekki á sama. Eftir margar (maaargar) ferðir milli tveggja neðstu hæðanna fann ég loksins lyftu og fór inn í hana. Þá gat ég valið milli hæða 1-4 og við 4 stóð entré. Þá höfðum við í byrjum heimsóknar labbað NIÐUR stigann en ekki upp án þess að blaðrarinn ég tæki eftir því, og ég búin að vera að álpast í misdjúpum kjöllurum að leita að útganginum. Ég skammaðist mín ögn og skottaðist heim. (En samt í alvöru, hvað er með að nefna hæðirnar ekki -1, -2 osfrv ef þær eru í kjallara?? Á ekki inngangur að vera á hæð E, 0, eða 1? Inngangur á fjórðu hæð er bara kvikindislegur, sérstaklega í stigagangi þar sem gengur um fólk sem hefur orðið fyrir áfalli eins og pyntingum. Það er bara heppilegt hvað ég er í frábæru jafnvægi.)

Siggi átti betri dag og hélt í fyrsta sinn sjálfur á pelanum sínum meðan hann drakk. Hann borðaði meira avókadó í kvöldmat og drakk vatn úr glasi.