Miðvikudagur 29. febrúar 2012

Sigurður hélt upp á fyrsta hlaupárið sitt með því að grípa í skeiðina sína. Hvort það hafi verið gert til að borða sjálfur eða koma í veg fyrir að móðir hans héldi áfram að byrla hann einhverju gúmmelaði sem honum þóknaðist ekki er ekki ljóst.

Skeiðin gripin glóðvolg

Skeiðin gripin glóðvolg

Vígreifur en afvopnaður

Vígreifur en afvopnaður

Sunnudagur 26. febrúar 2012

Í dag fengum við grun okkar staðfestan: Sundlaugar í Svíþjóð eru ómögulega kaldar og fullar af hoppandi og buslandi smáSvíum. Það var hinsvegar fallegur veðurdagur og bara gaman að dandalast um borgina í sólinni með forvitinn Sigurð í kerru.

Maggi sólar sig í strætóskýli. (Hann gleymdi að raka sig þennan morgun.)

Maggi sólar sig í strætóskýli. (Hann gleymdi að raka sig þennan morgun.)

Laugardagur 25. febrúar 2012

Í dag lagði fjölskyldan land undir fót og leitaði uppi barnavænt kaffihús sem Sigurður hafði heyrt að væri skemmtilegt. Eftir heilmikinn leiðangur í hressandi köldu vorlofti fannst kaffihúsið, þó Sigurður neitaði að gefa uppi hvort það stæðist væntingar.

Unnur og Sigurður á kaffihúsi

Unnur og Sigurður á kaffihúsi

Um kvöldið fengum við svo þær Hörpu Sif og Rósu Björk til okkar í heimsókn og létum þær niðurlægja okkur bæði með borðspili og spilastokk, einkar hressandi.

Fimmtudagur 23. febrúar 2012

Í dag var ég að heiman frá átta til hálfsex, og það er ömurlegt að vera svona lengi í burtu. Ég er komin í almennilegt samband við leiðbeinendurna og þau virðast ótrúlega elskuleg og hjálpsöm, og það er allt á réttri leið, en þau eru bara með svo margar tennur. Og finnst ekkert fyndið þegar ég fel mig bakvið skýrslu og birtist svo skyndilega ýlandi aftur. Svo það var ægilega gott að koma heim og knúsa Sigurð, og náttúrulega Magga (sem sýnir alltaf þá kurteisi að brosa þegar ég birtist ýlandi aftur). Þeir höfðu hinsvegar greinilega átt fullkomlega ágætan feðgadag saman.

Fullkomlega ágætir feðgar

Fullkomlega ágætir feðgar

Miðvikudagur 22. febrúar 2012

Sigurður hlaut skoðun hjá sænskum heilbrigðisyfirvöldum í dag og var lofaður í hástert. Honum var lýst hvorki meira né minna en heilum fimm sinnum sem fullkomnum af hjúkrunarfræðingum og læknum, og þykir okkur því sérstaklega vænt um sænska heilbrigðiskerfið í dag. 9 kg múrinn hefur verið rofinn (9,03 kg), sem og 70 cm múrinn (71 cm). Tröllabarn.

Tröllabarn í bala

Tröllabarn í bala

Mánudagur 20. febrúar 2012

Í dag var haldið á Södermalm þar sem Gunnhildur nokkur hafði blásið til bolludagskaffi og okkur var það með öllu ógerlegt að mæta ekki. Sigurður var sjarmatröll sem endra nær og tók gestgjafann miklu ástfóstri eftir að hún tróð hann út af bollum og rjóma. Hann ætlaði aldrei að vilja koma með okkur heim aftur, og þverneitaði að borða grautinn sem hann fékk í kvöldmat heldur frussaði honum yfir móður sína og krafðist þess að fá að ræða þetta við góðu rjómabollukonuna.

Sigurður hjá Gunnhildi gestgjafa

Sigurður hjá Gunnhildi gestgjafa