Laugardagur 31. mars 2012

Í dag opnar Lill-Skansen aftur eftir miklar framkvæmdir og höfum við Siggi ákveðnar áhyggjur af því að Unnur muni koma til með að “skreppa út að kaupa mjólk” og ekki sjást aftur fyrr en eftir 2-3 vikur. Þá mögulega með lítinn kettling sem hún hefur náð að lauma inn á sig.

Miðvikudagur 28. mars 2012

Maggi var gerður útlægur af heimilinu í dag þegar í ljós kom að fótboltaleikur dagsins (Barcelon – AC Milan) var ekki í boði á þeim stöðvum sem við höfum aðgang að. Var því tekið til þeirra ráða að blása til sportbarshittings með Arnari, sem tók vel í þau plön. Brynjar Smári kom með og voru það því þrír herramenn sem skemmtu sér saman yfir látunum í innfæddum – en þeir klöppuðu og hóuðu mikið í hvert einasta skipti sem hetjan Zlatan Ibrahimović kom nálægt boltanum. Liðin skildu jöfn þar sem hvorugt kom boltanum í netið, verður spennandi að sjá hvernig næsti leikur fer. Þetta verður mögulega notað sem afsökun fyrir strákahitting í framtíðinni.

Mánudagur 26. mars 2012

Í gær gleymdist: Siggi fékk fjórðu tönnina! (Og fer þá kannski að sofa aftur á næturnar, plísplísplís.) Í dag lærði ég á kaffihúsi, þangað sem Maggi og Siggi kíkja stundum í heimsókn og dást að fallega veggfóðrinu.

Siggi, ekki að sýna ykkur nýju tönnina

Siggi, ekki að sýna ykkur nýju tönnina

Sunnudagur 25. mars 2012

Í dag var Vöffludagur haldinn hátíðlegur í Svíþjóð. Það hefðum við ekki vitað hefðu Begga og Ingó ekki boðið okkur í dýrindis vöfflukaffi. Við vorum hinsvegar svo upptekin við að háma í okkur vöfflur að myndavélin gleymdist í töskunni sinni.

Bangsi + tvöfalt límband = kortér sem Unnur var alls ekki að skrifa ritgerð

Bangsi + tvöfalt límband = kortér sem Unnur var alls ekki að skrifa ritgerð

Föstudagur 23. mars 2012

Sigurður hlaut 8 mánaða skoðun í dag og var orðinn 9.47 kg þungur og 72 cm langur! Var í tvígang lýst sem fullkomnu eintaki og því var haldið fram að önnur börn ættu að vera eins og hann. Okkur þykir vænt um sænska heilbrigðiskerfið.