Dagur 117

Í dag ákvað óhamingjusamur maður að sprengja sig í loft upp á Drottningargötunni. Það gerði hann eina daginn í manna minnum sem við lögðum leið okkar þangað til að kaupa jólagjafir og viðra frænkur, og bara rétt við búðina sem við stóðum fyrir utan. Maður er of nálægt sprengingum þegar maður finnur lyktina af þeim. Hið óhuggulegasta mál alltsaman, en allir ómeiddir virðist vera nema umræddur maður.

Að öðru leyti var þetta sérlega jólalegur og uppbyggilegur dagur, við röltum um Gamla Stan, fórum í jólabúðir (Maggi ættleiddi nokkra nissa) og á jólamarkað (heitt kakó úr hvítu súkkulaði). Svo enduðum við daginn öll í hóp, við Maggi, frænkurnar og vinkonurnar, á austurlensku hlaðborði þar sem við borðuðum úr okkur taugatitringinn (sem var greinilega meiri en ég hélt, því ég geti ekki hreyft mig fyrir ofáti!).

Við fundum líka upp nýtt orðatiltæki, þegar Lilja tók eftir því að nýju sokkarnir með dúskunum voru farnir að dragast eftir drullunni í lestinni: Að draga dúskana = að vera búinn að versla yfir sig og búinn á því. Ykkur er öllum boðið að vera með í að koma þessu inn í tungumálið, sérstaklega auðvelt núna fyrir jólin þegar margir munu draga dúskana í Kringlunni.

4 thoughts on “Dagur 117

  1. Þetta er óþægilega nálægt. Nú er best að drífa sig heim á “Gamla landið”.

  2. Eins gott að ég sá ekki fréttirnar frá þessu fyrr en þú varst búin að tala við mig, ansi hrædd um að mér hefði brugðið illa.

  3. ég heryði einmitt fréttirnar og var komin með símann í hendina til að hringja og tékka á ykkur þér ég hugsaði sísvona: ” nei kommon, vertu nú einu sinni ekki þessi týpa!” svo ég hringdi ekki….

    • Mér finnst þú sæt. Og það má alveg hringja, það er bara gaman að heyra í þér. Ég frétti einmitt að þú hefðir hringt í gærkveldi, og vil endilega að þú reynir aftur, til dæmis annað kvöld ;)

Comments are closed.