Dagur 172

Í dag fengum við innilega nóg af tveggja tölustafa frosti, brotnuðum saman og keyptum okkur ferð til Frakklands í maí. Planið er að kíkja bæði til Strass og Parísar, jafnvel leyfa Magga að upplifa dýrðina sem er apagarðurinn í Alsace, vínhéraðið og litlu þorpin og svona. Allavega erum við búin að bóka hótel í Strass sem er svo mikið í miðbænum að ég er nokkuð viss um að við munum ekkert geta sofið fyrir látum í dómkirkjuklukkunum! Herbergið okkar er að vísu ekki nema 11 fermetrar með baðherbergi og öllu, svo það er eins gott að samkomulagið verði gott… Ég fékk örlítið sjokk þegar ég var að lýsa fyrir Magga öllu þessu skemmtilega sem við gætum gert og þurfti að draga helminginn til baka því ég má það ekki, eins og skemmtilega vínbarinn þar sem maður fær eitt glas af hverju víni með miklum útlistingum á því ásamt ostum og pulsum sem eiga að passa með, og litlu bjórbrugghúsunum sem gera bjór í kjallaranum og leiða hann beint, gruggugan og sætan og fínan, upp á barinn. Góði góði osturinn og kælda pinot noir-ið mitt er líka off, en sem betur fer er hægt að kaupa flösku af víninu og opna það við gott tækifæri seinna bara. Við vitum ekkert um Parísar-hlutann af ferðaplaninu ennþá hinsvegar, því við erum bæði algjörir ratar þar. Sem betur fer þekkjum við gott fólk sem býr þar, við treystum á að þau hjálpi okkur að velja áhugaverða staði að heimsækja og (ennþá mikilvægara) bestu kaffihúsin að dóla sér á. Í tíu stiga frostinu sem er spáð áfram hérna getum við allavega lifað á því að bráðum getum við japlað á krossöntum og alpahúfum í hlýjunni.

3 thoughts on “Dagur 172

  1. Fínt fyrir Magga að æfa sig aðeins í frönskunni.
    Frábært plan hjá ykkur – hvaða daga verðið þið í Frakklandi?
    Unnur þú getur borðað allt sem er soðið og gerilsneytt og jafnvel dýft tungu í rauðvínsglas svona til að fá bragðið.

    • Það er ódýrast að fljúga á miðvikudögum virðist vera, svo við förum 4. maí og komum aftur 11. maí. Þá 4.-7. í Strass og 7.-11. í París :)
      Ég plata Magga til að panta sér eins og eitt glas af pinot noir og bíð svo eftir að hann bregði sér á klóið eða eitthvað…

Comments are closed.