Dagur 174

Hugtakið “brainfreeze” öðlaðist nýja merkingu fyrir mér í dag. Hafandi borðað ís hraðar en ráðlagt þykir oftan en einu sinni og oftar en tvisvar er ég ekki alls ókunnugur því hvernig höfuðið virðist frosið í skamma stund.

Það var hins vegar ekki fyrr en í dag sem ég upplifði það að andadrátturinn minn frysi um leið og hann steig upp frá vitum mér, og small síðan snyrtilega á óvarið ennið – sem frysti hausinn á svipaðan hátt og ís getur gert. Sænskur brainfreeze, einn tveir og þrír.