Dagur 177

Í dag var loksins manneskjulegt hitastig úti, og ég fagnaði með því að skottast um Gamla stan. Það urðu allir að ganga um mjóar göturnar í einfaldri röð til að fá ekki í höfuðið snjó sem var að bráðna af þökum og gluggasyllum, en það var bjart og stillt og allir með ófrosin nefhár, svo stemmningin hefði ekki getað verið betri. Enda leit út fyrir að allir íbúar Stokkhólms hafi fengið sömu hugmynd, frelsinu fegnir eftir að hafa kúldrast inni í kuldanum síðustu vikur og mánuði. Svo fór ég á kaffihúsadeit með Magga þar sem við lærðum og ég fékk heimabakað kærleiksmums. Þetta var orðin svo yfirdrifin hversdagsrómantík á einum laugardegi að Maggi bjargaði að lokum heiðri okkar með því að stinga af á djammið með bekkjarfélögum sínum. Slapp fyrir horn, í þetta sinn.