Dagur 8

Í morgun skildi ég Magga eftir heima í reiðileysi og fór að skrá mig í skólanum mínum. Okkur hafði borist póstur þess efnis að við mættum skrá okkur formlega í dag, og verandi samviskusömu konurnar sem við erum þá fórum við Harpa á stúfana. Í ljós kom að þessi formlega skráning fól það í sér að við læsum fæðingardaginn okkar af blaði og staðfestum að hann væri réttur (ekki með því að kvitta neinsstaðar, bara með því að kinka kolli). Gott við rifum okkur upp og tókum lest og strætó til að standa í þessum stórræðum. Eftir þetta erfiða ferli skelltum við okkur á Söder, aftur á Copakabana þar sem við borðuðum ljúffengar samlokur og “lærðum”. Á leiðinni fann ég hinn fullkomna hlut í sérkennilega glerskápinn í stofunni sem við vitum ekkert hvað við eigum að gera við. Hann verður keyptur um leið og fæst leyfi hjá Magga. Tada:

púðla

Króm-púðla!

Við biðum svo eftir að dótið sem við sendum með skipi bærist okkur, það átti að gerast í dag, en Samskip hringdu sig inn veik fljótlega eftir hádegið, og ætla að snýta sér í búslóðina fram á fimmtudag. Við ákváðum þá að gera víðreist og skoða gymmin þrjú sem eru í hverfinu, og reyna að velja á milli þeirra. Valið stendur á milli dýrs SATS (með klifurvegg, sem augun í Magga tvöfölduðust við að sjá), sæmilegs Friskis&Svettis (ísl. Feit og sveitt) eða mjög svo spúkí World Class (“Þið þurfið að borga aukalega fyrir að æfa í hinum útibúunum okkar. Nema þessu í Alvik, bróðir minn vinnur þar”). Málið er  í nefnd. Í leiðangrinum rákumst við á Ísafjarðargötu og Gullfossgötu. Borgarfjarðargata verður skoðuð með meiri viðhöfn við betra tækifæri. Á leiðinni heim fannst okkur viðeigandi að nefndarstörf varðandi val á líkamsræktarstöð færu fram á hamborgarastað. Max varð fyrir valinu, því þeir gróðursetja tré til að kolefnisjafna máltíðina okkar. Við erum sökkerar fyrir svoleiðis löguðu.

Á morgun: Kynningardagur fyrir meistaranema, sem endar með skralli um kvöldið. (Verst að partýhattarnir og glowstickin voru á skipinu).

Eins og svo oft þá tók Maggi fallegar myndir í dag. Vessgú:

5 thoughts on “Dagur 8

  1. Þetta eru lygar, emergency-glowsticks eru geymd á góðum stað hér í íbúðinni!

    Gera lítið gagn ef upp kemur neyðartilfelli og þau eru á einhverjum dalli á rúmsjó. Augljóst mál.

  2. Fyrst fundurinn var haldinn á Max hlýtur Feitt og sveitt að hafa orðið fyrir valinu

  3. Þið eruð æði pæði!! Er endalaust glöð með nýja bloggsíðu:)
    púðlan er vafasöm……

Comments are closed.