Dagur 206

Nú hafa verið keyptir miðar heim til Íslands 5. júní. Niðurtalning er hafin (70), en ég hef á tilfinningunni að tíminn verði fljótur að líða. Í millitíðinni fer Maggi í útskriftarsiglingu til Eistlands, við förum til Köben á fjölskyldufund og til Frakklands í rómó túristaferð. Ég er búin að heimta allavega eina ferð á Skansen þegar Lill-Skansen opnar í vor, einhverjir gestir eru á dagatalinu og svo tekur líka tíma að spóka sig í góða veðrinu sem við bara hljótum að fá eftir þennan óþarflega viðskotailla vetur. Við gætum þurft að fórna skólanum til að sinna þessu öllu saman.

Í ungafréttum er það helst að mig grunar að hann sé að stækka hraðar en ég þessa dagana, því mér líður svolítið eins og ég sé að springa á saumunum. Ég fóðraði hann samviskusamlega á hnetusmjörsemmogemmi meðan ég var í heimaprófinu um helgina, og hann varð alveg tjúll. Ég vona að það sé af því honum finnist það sérstaklega agalegt, ég vil ekki þurfa að slást við fleiri um það. Það er alveg nógu erfitt að ná því úr krumlunum á Magga.

Ég myndi segja fréttir af Magga en það hefur ekkert spurst til hans um helgina. Ég hef grun um að hann komi í leitirnar eftir stóra prófið á morgun svo ég hef engar sérstakar áhyggjur.

2 thoughts on “Dagur 206

  1. Spennandi tímar framundan og nóg að gera. Kannski ungi litli sé líka spenntur fyrir ferðalögum.

  2. íííííííík!!! þið verðið komin heim áður en við komum úr sólinni :-)

Comments are closed.