Dagur 209

Maggi fékk þrjá boðsmiða á tónleika með Friðriki Ómari þegar hann fór í sendiráðið í gær með útrunna vegabréfið sitt. Hann bauð okkur Hörpu með sér og ekkert okkar var sérlega spennt, en við ákváðum nú samt að drífa okkur því það þýðir ekki að nöldra yfir því að Íslendingasamfélagið hérna sé óvirkt og mæta svo ekki sjálfur þegar eitthvað er að gerast.
Tónleikarnir komu okkur öllum skemmtilega á óvart. Ég bara vissi hreinlega ekki að Friðrik Ómar væri svona góður söngvari, og svo var hann að syngja svo mikla klassíkera að það var ekki annað hægt en að dilla sér í sætinu og vera hress. Meira að segja ungi dillaði sér (en bara við Robbie Williams og Queen).
Við vorum rétt komin inn í salinn og sest þegar ég sá stæðilegan Svía í pólóbol ganga inn. Hann var meðalmaður á hæð, en bætti góðum 5 sentimetrum við það með þessari fínu býkúpugreiðslu sem hann var búinn að dunda sér við að móta úr ljósu lokkunum. Um leið og ég sá hann vissi ég að þarna væri kominn maðurinn sem sæti beint fyrir framan mig, og það stóðst að sjálfsögðu. Þessir sentimetrar af hári voru akkúrat það sem mig vantaði uppá til að sjá á sviðið, og ég var hvað eftir annað komin að því að fletja ósköpin út með lófanum, eða skipta snyrtilega í miðju og búa þannig til lítið skarð sem ég sæi í gegnum. Ég stóðst freistinguna, en naumlega, og býkúpumaðurinn fékk að fara alveg jafn flöffí og fínn heim eins og þegar hann mætti. Live and let live og allt það.

Í morgun fórum við í mæðratékk og við ungi fengum fulla skoðun (Maggi á hinsvegar að borða aðeins meira, hann er undir kúrfunni sinni). Ég reyndist vera bæði með blóðþrýsting og blóðsykur, og unginn með hjartslátt, sem mér skilst að sé allt af hinu góða. Go team!

7 thoughts on “Dagur 209

  1. Á ég að trúa því að Magnús hafi ekki boðist til að skipta við þig um sæti? Hver ól þig upp Maggi? :-(

  2. já ég varð einmitt fyrir sömu ” vonbryggðum” með Friðrik Ómar á Frostrósum í fyrra…. hann bara getur sungið…. who knew!?!?!?

  3. Robbie Williams og Queen?!? Er uppeldið strax að klúðrast??
    Vel uppalin ungabörn farað grenja um leið og stillt er á Bylgjuna

    • Hvað meinarðu, getum notað “Queen on panpipes” til að svæfa fyrstu mánuðina og svona, sé ekki vandamálið.

Comments are closed.