Dagur 9

Vorum að lenda í Kistunni eftir viðburðaríkan dag. Það var kynningardagur fyrir meistaranema í háskólanum, svo við eyddum deginum þar við að blaka eyrunum og ná áttum. Í kvöld var svo bjórkvöld til að hrista liðið saman, og við vorum ákveðin í að mæta og kynnast fólki. Þegar á hólminn var komið nenntum við ómögulega af stað, komin heim og allt voða kósí og fínt. En við náðum nú samt að virkja sjálfsagann og drattast af stað á endanum. Við komum inn í partýið og það fyrsta sem við hugsuðum var “I’m too old for this sh**”. Svo við drukkum bjór. Verandi tvö saman þá vorum við sennilega frekar óárennileg, en á endanum ákváðum við bara að velja einhvern sem virtist vera einn og hafa villst frá hjörðinni sinni, og LÁTA hann vera vin okkar. Fyrir valinu varð þessi líka fíni Kínverji. Við spjölluðum við hann í eina tvo tíma, og tókum svo lestina saman heim. Við vorum svo spennt yfir nýja vininum að við tókum ekki eftir því fyrr en hann var farinn út úr lestinni að við vorum á vitlausu spori. Það var ekkert mál, við skutluðumst bara út á næsta stoppi og ákváðum að taka næstu lest til baka og reyna aftur. Nema þá vildi svo skemmtilega til að þetta hafði verið síðasta lest næturinnar, og ekki von á annari næstu fimm tímana. Það var mjög snautlegt par sem tók leigubíl heim…

3 thoughts on “Dagur 9

Comments are closed.