Dagur 12

Maggi var ennþá sloj þegar við vöknuðum í morgun, en ákvað samt að bíta á jaxlinn og drífa sig með í verslunarleiðangurinn sem var á dagsplaninu. Harpa var með bíl í láni, og bauðst til að taka okkur með í Ikea, Bauhaus og Jysk (Rúmfatalagerinn). Algjör forréttindi og fara þannig ferð á bíl en ekki í strætó og lest, svo við þáðum boðið með þökkum. Eftir tvo tíma í troðnu Ikea var kvefaði maðurinn greinilega farinn að sjá eftir því að hafa látið hafa sig út í þetta, en þá var of seint að hætta við. Svo í Bauhaus og Jysk tók hann bara beint strik á næsta sýningarsófa, og prófaði hann svo af einbeitingu meðan við Harpa hrúguðum til hans öllu góssinu. Mjög gott og skilvirkt kerfi.

Við borðuðum að sjálfsögðu kjötbollur í Ikea (alveg eins og á Íslandi!) og í sama hverfi og þessar búðir voru sáum við stórt fata-outlet, og ýmislegt sem þarfnast frekari athugunar við tækifæri. Við vorum hinsvegar svo þreytt í sálinni þegar heim kom að við gerðum ekkert fleira það sem eftir lifði dags. Nú sit ég og horfi á draslið sem við hrúguðum heim. Ég held það muni dúsa í pokunum ansi lengi.

Á morgun: Versla í matinn, elda nestis-súpu, lesa fyrir fyrsta fyrirlesturinn, ganga frá drasli, snýta Magga…

2 thoughts on “Dagur 12

  1. Ég vildi hafa verið með ykkur þetta hefur verið góð ferð. Nú fer að verða heimilislegt hjá ykkur nóg af dóti og alls konar nauðsynjahlutum komnir í búið……..

Comments are closed.