Dagur 234

Maggi var svo spenntur yfir páskunum að hann glaðvaknaði og stökk á fætur um sexleytið í morgun. Ég svaf það af mér, en ímynda mér að góðri stund hafi verið eytt í vonlausa páskaeggjaleit í íbúðinni… Það var allavega vonsvikinn og súkkulaðifrír Maggi sem mætti mér þegar ég loksins skreið á fætur einhverjum klukkustundum síðar. (Note to self: Skaffa páskaegg og fela á næsta ári. Stórt.)

Af því við berum greinilega enga virðingu fyrir stórhátíðum var deginum eytt í að þvo þvott, laga til og skipta vetradóti út fyrir sumardót. Þar til yndislega glampandi sólskinið úti kallaði á okkur og ég frumsýndi hvíta vetrarleggi í stuttbuxum í Svíþjóð, meðan Maggi tók myndir af páskaskrautinu í hverfinu.

Umrætt páskaskraut

Umrætt páskaskraut

Umrætt páskaskraut 2.0

Umrætt páskaskraut 2.0

Hitinn úti var greinilega of mikið fyrir viðkvæma blómið sem ég er, því ég gat ómögulega haldið mér vakandi þar sem eftir lifði dags, og mátti ekki vera kyrr neinsstaðar í meira en 30 sekúndur án þess að missa meðvitund. Magga fannst það voða fyndið (þar til hann uppgötvaði slefblettina því ég var yfirleitt með höfuðið í kjöltunni á honum þegar ég datt útaf). Nú eigum við að vera í páskapartýi en ég neita að fara í buxur (of heitt fyrir svoleiðis formlegheit!) og Maggi neitar að fara með mig út svona buxnalausa og þar stendur hnífurinn í kúnni.

2 thoughts on “Dagur 234

  1. Yndislegt að hafa þetta góða veður en það eru mikil viðbrigði svo maður getur orðið slappur. Spennandi að heyra um endinn á þessum degi hjá ykkur, væru ekki stuttbuxur góð málamiðlun þarna. Við fórum á Helgafell í þvílíku roki og hagli að ég hélt á tímabili ég myndi takast á loft fram af, en allt endaði þetta nú vel.

    • Þetta fjallabrölt ykkar er alveg farið úr böndunum. Þú verður allavega að lofa að drekka nóg af latté og borða nóg af köku til að fjúka ekki burt!

Comments are closed.