Dagur 238

Ég er ekki ennþá búin að jafna mig á því þegar köngulóin datt úr hárinu á mér og ofaní töskuna mína í lestinni í dag. Mér til hróss þá tókst mér að panika bara inní mér, alveg án þess að dansa venjulega köngulóadansinn minn um alla lest. Mér til ennþá meira hróss þá tókst mér að ná köngulónni uppúr töskunni án þess að hún yrði fyrir neinum líkamlegum né, að því er virtist, andlegum skaða. Ég ætla hinsvegar héðan í frá að ganga bæði með hárnet og sundhettu, just in case.

Annars leikur mér forvitni á að vita hversu margir voru búnir að mæta mér með köngulóna Á HAUSNUM án þess að detta í hug að segja mér það. Ég var nýkomin af troðinni lestarstöð. Hvar er náungakærleikurinn? (Samt sennilega eins gott. Ef einhver hefði sagt við mig setninguna “Afsakið fröken, en þér eruð með könguló á höfðinu” þá hefði ég 100% dansað köngulóadansinn fyrir samferðafólk mitt).