Dagur 239

Viðburðaríkur dagur. Við byrjuðum hann á að fara í mæðraskoðun þar sem ungi fékk meðal annars sitt fyrsta vottorð, um að hann megi ferðast til Frakklands í næstu viku. Allt eins og það á að vera annars, og pjakkur virðist meira að segja búinn að finna það út að hann eigi að snúa höfði niður og stéli upp. Mér til mikillar gleði því þá er auðveldara að finna hann sparka, uppáhaldshobbíið mitt þessa dagana.

Svo seinnipartinn héldum við galvösk á Profylax-fæðingarnámskeiðið okkar, þar sem mættu okkar sjónvarpsmyndavélar og míkrafónar. Einhver sjónvarpsstöðin  hafði fengið leyfi til að taka herlegheitin upp og nota í þátt um fæðingarundirbúning. Gott og vel. Áður en námskeiðið byrjaði kom sjónvarpsfólkið til okkar Magga og spurði hvort við værum til í að koma í stutt viðtal um námskeiðið og væntingarnar til fæðingarinnar og svona. Ég sagðist ekki treysta mér til að svara á sænsku, og afþakkaði pent. Þá tóku þau bara ekki viðtal við neinn, sem við skildum þannig að við værum langsamlega áhugaverðasta parið á staðnum og enginn annar myndi gera sama gagn. Ég spjallaði við kennarann fyrir tímann og sagði henni að sænskan mín væri ennþá í þróun, og ég myndi kannski ekki skilja hvert einasta orð, en þá myndi ég bara spyrja hana útí það eftir tímann. Hún sýndi því mikinn skilning. Þar til hana vantaði tilraunagrís til að sýna öndunaræfingar og nuddtækni og annað fyrir framan alla, að myndavélunum meðtöldum. Í bæði skiptin sem hún á annað borð þurfti tilraunagrís var það ég sem varð fyrir valinu, eina manneskjan á staðnum sem yfirlýst var ekki alveg með á nótunum. Ég sagði Magga þegar við mættum að ég hefði sett á mig blómaklút sérstaklega til að virka vinaleg, og það hefur greinilega haft aðeins of sterk áhrif. Mæti blómaklútslaus á seinni hlutann á morgun. En þetta blessaðist allt, Maggi segir að samkvæmt kennaranum hafi ég “andað eins og gyðja”, en ég missti af því þar sem ég upptekin við að panika yfir tilraunagríss-ástandinu. Maggi fékk að klípa mig að vild (“helst í innanvert lærið, það er verst!”) svo ég gæti æft mig að anda gegnum sársauka, og svo komst ég að því að ég er ömurlega léleg í slökunaræfingum á meðan Maggi gæti sennilega tekið að sér að kenna þann hluta námskeiðsins (rétt upp hönd sem er hissa).

Að námskeiðinu loknu hittum við Örnu og Bjarka ásamt sænskum vini þeirra og eyddum kvöldinu í hlátur og át á ágætum indverskum veitingastað. Agalega gaman að blaðra svona á íslensku, meiriháttar að hafa þau á staðnum.

Nú eigum við ennþá eftir að vinna heilmikla heimavinnu fyrir næsta profylax-tíma, sem er strax í fyrramálið. Það er engin miskunn í þessum fæðingarfræðslubransa.

4 thoughts on “Dagur 239

  1. allt getur nú komið fyrir þig. ég myndi nú frekar mæla með því að þeir sem eru hissa á því að þú hafir lennt í þessu öllu rétti upp hönd…. ég sit ofan á minni :-)

  2. mikið svakalega rosalega er bloggið ykkar í uppáhaldi hjá mér … vei vei vei!! áfram þið!!
    Hlakka mikið til að lesa um hvernig fór í blómaklútalausum tíma …

  3. Næm kona, séð í þér leikarataktana. Þetta hefur verið mjög athyglisvert. En alltaf gaman að hitta vini, bíð spennt eftir framhaldinu.

Comments are closed.