Dagur 240

Ræs í bítið til að útskrifast úr fæðingarfræðunum. Enginn blómaklútur með í þetta sinn, enda greinilega útbúnaður sem þarf að notast á ábyrgðarfullan hátt. Í dag var farið yfir allskonar nuddtækni sem Maggi á að æfa á mér, ég er mikill aðdáandi þessa heimanáms. Svo önduðum við meira, æfðum okkur að rembast, og Maggi fann toppinn á leginu á sér eftir þónokkra leit. Success! Heimaverkefnið fyrir tímann hafði verið að skrifa niður ýmislegt um draumafæðinguna, hverju maður hefði mestar áhyggjur af, búa sér til lítil markmið osfrv. Gott stöff. Svo áttum við að ræða það í tímanum í dag skildist okkur, og hún byrjaði á að láta okkur Magga deila okkar leyndustu hugsunum með hópnum. Við gerðum það samviskusamlega eins og heimavinnunördarnir sem við erum, og þegar við vorum búin og hún búin að kommenta á herlegheitin, mjög hjálplega, þá fannst henni nóg komið og enginn annar fékk að deila sínu heimanámi með hópnum. Mér fannst ögn vandræðalegt að vera fólkið sem hellti úr skálum hjarta síns þegar enginn annar gerði það sama, svona virkar eiginlega ekki sem hópefli nema allir deili einhverju frá sér, annars eruð þið bara fólkið sem allir hinir vita aaaðeins of mikið um. En við útskrifuðumust nú öll, og mikil gleði á heimilinu með þetta námskeið, kennarinn var svo mikið endemis krútt að við hefðum tekið hana með okkur heim hefði hún ekki verið töluvert sterkari en hún leit út fyrir að vera…

Því sem eftir lifði dags eyddum við á röltinu með Örnu og Bjarka, einn af þessum ótrúlega indælu dögum í Stokkhólmi þegar maður bara ráfar um stefnulaust, blaðrar, borðar, tekur myndir og hlær að dúfum. (Sérstaklega dúfunni sem hélt að tjörnin á Kungsträdgården væri stétt því það sást ekki í vatn fyrir kirsuberjablómum. Missti algjörlega kúlið við að lenda á vatninu, fyrir framan alla, panika lúðalega yfir skorti á fótfestu, koma sér með skrautlegum tilþrifum á þurrt land og horfa svo flóttalega í kringum sig, svekkt að sjá myndavélina hans Magga. Dúfulúði.)

5 thoughts on “Dagur 240

  1. Það er svo gaman að lesa þetta, alls konar skemmtilegar uppákomur hjá skemmtilegu fólki, hafið það gott.

  2. Er Ungi litli þá orðinn útskrifaður í að fæðast?

    • Hann er kominn með alla nauðsynlega pappíra og gráður til þess, en við ætlum að krefjast þess að hann æfi það sem hann lærði í allavega tvo mánuði áður en hann fær að fæðast.

      • Ertu viss um að þú viljir að hann æfi sig að fæðast á hverjum degi í tvo mánuði?

Comments are closed.