Fimmtudagur 26. maí 2011

10 dagar í að við förum til Íslands. Það er allt svona hálf-gert á heimilinu eins og er, íbúðin hálfpökkuð, ritgerð hálfskrifuð, kúrs hálfkláraður, íbúð hálfþrifin, við hálf farin heim en samt hálf ennþá í Svíþjóð. Hálf-óþægileg staða, en nú styttist í að við getum klárað þessi verkefni bara og rokið upp í flugvél.

Maggi vinnur sleitulaust við að klára ritgerðina sína, og er búinn að koma sér upp skrifstofu á kaffihúsi í hverfinu. Þar er hann búinn að eigna sér hægindastól og ég kem iðulega að honum þar sem hann er farinn úr skónum og kominn með sokkaklæddar bífurnar uppá borð, agalega heimilislegt. Þetta greinilega virkar, því verkefnið snargengur hjá honum. Á meðan ég er meistararitgerðargrasekkja hef ég tekið upp á samviskulausu framhjáhaldi með Kurt Wallander. Hljóðbók númer þrjú er núna að rúlla í eyrunum, þá eru ennþá sjö eftir svo ég get liðið Magga það að dunda sér ögn lengur við skrifin.

6 thoughts on “Fimmtudagur 26. maí 2011

  1. ég þarf að finna mér svona ritgerðarskriftarkaffihúsavinnubústsstól til að rjúka svona áfram í minni …. annars er engin hálf-kák í velgengis óskum mínum til ykkar í öllum ykkar verkefnum næstu daga :o)

  2. Fer Maggi ekki að komast á svartan lista í kaffihúsinu – sem “long staying, no buying person”?

    • Það er ekki ólíklegt, hann er þarna heilu og hálfu dagana og ég veit ekki til þess að hann versli neitt nema einn kaffibolla þegar hann mætir. Ekki vinsæli gæinn sennilega.

Comments are closed.