Föstudagur 3. júní 2011

Ég skilaði loksins heimaprófinu mínu í dag, og eftir smá tiltektarrassíu notuðum við föt sem þurftu að komast í Rauða krossinn sem afsökun til að skella okkur í sólina á Södermalm. Þar sátum við svo á bekk og horfðum hugfangin í klukkutíma á stelpu með kött í bandi. Við erum búin að sjá nokkra ketti í bandi síðustu mánuði, bæði hér í Stokkhólmi og í Frakklandi, og allir þessir kettir hafa litið út fyrir að vera sérlega kátir með ráðahaginn. Eftir að hafa einhvern tímann reynt að setja gömlu Kisu okkar í band og hún lá bara eins og skotin og lét draga sig á bakinu hélt ég að þetta væri vonlaust konsept, en þetta getur greinilega virkað fyrir suma. Skemmtilegt. Svo var haldið heim á leið að þrífa baðherbergi og eldhússkápa, og það fer nú bara að verða frekar lítið eftir til að þrífa á þessum 46fm, nema við ákveðum að trilla annan hring svona fyrst við erum að þessu.

Heim eftir tvo daga! Íslenskt vatn! Kúlusúkk! Fiskur! Saffran! Grænmeti! (Er í grænmetisbindindi að fyrirskipan ömmu vegna saurgerla-árásarinnar sem geisar á meginlandinu.)

2 thoughts on “Föstudagur 3. júní 2011

  1. Ég get enn hlegið þegar ég hugsa um kisu, þegar þú varst að reyna að hafa hana í bandi, hún var mjög móðguð enda var hún prinsessa að eigin mati.

Comments are closed.