Sunnudagur 23. október 2011

Við erum að aðlagast gestalausa lífinu á ný, aðeins of mikill lúxus að hafa gesti svona tvær vikur í röð. Siggi er hálf ómögulegur eitthvað eftir að fjölskyldan fór, ég held honum finnist ekki nóg dáðst að sér lengur. Barnið fór úr stærð 62 í 68 um leið og mamma mætti, henni fannst hann orðinn eins og strekktur köttur og ég sá ekkert hvað hún átti við fyrr en við settum hann í 68 og ég áttaði mig á því að barnaföt eiga víst ekki að passa eins og skautahlaups-spandexgallar. Úps. Maður er alltaf að læra.

Í dag fórum við í ótrúlega gómsætan mat til Ingós og Beggu, þar sem Maggi gerði heiðarlega tilraun til að taka jólakortamyndina þeirra í ár. Mér þykir svona frekar líklegt að hún verði hreyfð. Ég hef í kjölfarið ákveðið að allar jólakortamyndirnar okkar Magga verði alltaf bara af okkur tveimur, því við kunnum að sitja kyrr með jólabrosið okkar. Siggi getur bara teiknað sig inná þær þegar hann hefur aldur til.

2 thoughts on “Sunnudagur 23. október 2011

  1. Já um að gera að fara að nota fötin – um leið og þau smellapassa eru þau um það bil að verða of lítil á svona hraðvaxandi fólk. Þetta lærist með reynslunni.

  2. Ég get vel teiknað mig inn á jólakortin ykkar ef ég æfi mig aðeins betur. Ég er eiginlega alveg hættur að lita út fyrir.

Comments are closed.