Ævintýri dagsins var uppvakningaveiðar, þar sem okkur hafði verið lofuð svokölluð uppvakningaganga (e. Zombie walk) á Gamla Stan. Var því lagt af stað með myndavél að vopni og regnhlíf til varnar, þar sem veðurguðirnir ákváðu að nú skyldi sko rigna almennilega.
Þegar komið var á staðinn sáum við fámennustu uppvakningagöngu allra tíma.
Sænskum uppvakningum virðist vera sérdeilis illa við að blotna, þar sem ekki einn einasti lét sjá sig (að skipuleggjandanum undanskildum).
Eftir að hafa beðið í korter í rigningu eftir uppvakningun var ákveðið að hlýja sér með góðum kaffibolla, og haldið af stað til Södermalm. Þegar við vorum rétt lögð af stað í áttina að lestarstöðinni mætti okkur leiðsögumaður með hóp af ferðamönnum, ásamt tveimur sýningaruppvakningum. Ákveðin kaldhæðni þar.
Þegar komið var til Södermalm var rölt um og leitað að vænlegu kaffihúsi, sem fannst í Café Corno á Mariatorget.
Þegar stytt hafði upp og við höfðum hlýjað okkur nægilega, Unnur með sænska bók og glósupenna að vopni, héldum við aftur á vit ævintýranna og röltum hér um bil allan Södermalm, Gamla Stan og upp Drottningargötuna. Sáum ýmislegt skemmtilegt á leiðinni:
Eftir langan og strangan göngudag var endað á því að fara út (eða öllu heldur inn) að borða á Drottningargötunni, þar sem Maggi fékk þriðja flokks Carbonara og Unnur fékk ágætis pizzu.
Frábær dagur, að skorti á uppvakningum og slæmu Carbonara undanskildu. Myndir dagsins að neðan:
- Pizzuafgangurinn fékk að koma með heim
- En frábært hvítlauksbrauð í forrétt…
- Unnur komin aftur á upphafsreit dagsins
- Gamla Stan frá Slussen
- Skemmtimús og Skemmtielgur úr gleri
- Ratzinger páfi (Benedict XVI)
- Haustlitir á trjánum
- Stytta á Medborgarplatsen
- Risastór vínber í sandkassa
- Laufin skarta haustlitum
- Tveir smábátar á gosbrunni á Mariatorget
- Gosbrunnur á Mariatorget
- Sænsk smásjoppa
- Café Corno
- Unnur, heitt súkkulaði, kanelbulla og frábær kaffibolli
- Ferðamannaupvakningur
- Unnur með regnhlífina sína
- Hvekktur skipuleggjandauppvakningur
- Gangan í fullum skrúða
- Torgið þar sem gangan átti að vera
oh en huggó svona dagar eru bestir og búa til bestu minningarnar. bara spontant bæjarröllt alltaf æði
gaman að sjá myndirnar ykkar. Ég var einu sinni á námskeiði í Stokkhólmi og umsjónarmaðurinn var foringi í hernum. Mjög myndarlegur maður og karlmannlegur í búningnum sínum, allt þar til hann sagði “then we will have coffee and kanelbullar for everybody”. Það er eitthvað ótrúlega smábarnalegt við það hvernig Svíar segja kanelbullar. Sem eru samt alveg fullorðins sætabrauð!
Svíarnir eiga líka spes samband við bullurnar sínar, ég er búin að taka eftir því að þær eru alltaf helmingi ódýrari en annað sætabrauð. Ég er farin að halda að það séu álitin mannréttindi hérna að sama hvað fólk sé fátækt eigi það alltaf að hafa efni á bullu. Bullur fyrir alla! Oh, þessir kommúnistar.