Dagur 38

Þetta var langur skóladagur á báðum vígstöðvum, og skötuhjúin frekar uppgefin. Ég átti að vera í aðferðafræði sleitulaust frá níu til fjögur, en það kom gestur í skólann sem bjargaði okkur, og braut skólann upp með fyrirlestri í hátíðasalnum. Það sást á kennurunum að þau voru spennt, öll skælbrosandi út að eyrum og í sínu fínasta pússi. Karlarnir vatnsgreiddir, einhverra hluta vegna. Þessi rokkstjarna sem heimsótti okkur heitir Michael Marmot og hefur skrifað meirihlutann af öllu sem í er vitnað í náminu mínu. Yfirmaður prógrammsins var svo spenntur þegar hann kynnti Marmot á svið að hann hrasaði um hljóðnemasnúruna og rétt náði að grípa í handrið til að forða sér frá því að detta niður stiga. Fyrirlesturinn var mjög skemmtilegur, greinilega vanur maður á ferð, og boðskapurinn skýr og innblásinn. Stéttamismunur (glæpsamleg einföldun náttúrulega) á heilsu fólks og lífslengd er mikill um allan heim og alltaf að aukast. Það er hægt að loka þessu bili með einni kynslóð, við vitum hvað þarf að gera, við höfum allt sem þarf til að gera það, það vantar bara viljann. Ég mun mögulega vatnsgreiða mér ef ég verð svo heppin að sitja annan fyrirlestur hjá manninum. Af því ég veit að þið eruð sérstaklega áhugasöm um málið, þá eru hér tenglar á tvö verka hans sem hægt er að niðurhala (löglega):

Closing the gap in a generation, skýrsla fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina

Fair Society, Healthy Lives, líka kölluð “the Marmot Review”

Rokkstjarna.

6 thoughts on “Dagur 38

Comments are closed.