Dagur 55

Vorum nú rétt í þessu að koma heim af sænsku uppistandi, sem er að okkar mati einstaklega góð leið til að læra tungumál innfæddra og fá innsýn í menningarheim þeirra. Svo virðist reyndar vera sem innfæddir tali öðruvísi í sínu náttúrulega umhverfi en í sótthreinsuðum kennslustofum, og því ögn erfiðara að skilja það sem sagt er – sérstaklega þegar um er að ræða aðflutta (Stokkhólmsbúar tala svo þægilegt mál), taugaveiklaða (vesalings maðurinn sem byrjaði kvöldið, skalf eins og lauf í vindi) eða gúmmítöffara sem tala hratt með þykkum hreim.

Misgóðir (engar uppistandínur) en við stefnum á að fara aftur við næsta tækifæri, þar sem þetta er bæði góð og skemmtileg æfing – og svo leynast einstaka góðir brandarar inn á milli;

Ég fékk símtal frá leikskólanum þar sem elsti sonur okkar er nú um daginn, og mér tjáð að ég yrði að koma og sækja drenginn hið snarasta. Þetta kom flatt upp á mig og ég spurði hví svo væri; jú hann hefði víst verið í læknisleik með einni af stúlkunum. Hugsaði með mér að það væri nú enginn heimsendir, og spurði hvort þau væri ekki að gera úlfalda úr mýflugu – en var tjáð að svo væri ekki, þar sem strákskrattinn hefði tekið botnlangann úr henni og slíkt væri ekki liðið á þessum leikskóla.

One thought on “Dagur 55

Comments are closed.