Laugardagur 7. apríl 2012

Í dag var boðið til páskamatarboðs Stokkhólmsbúa. Harpa Sif og Rósa Björk (vín, kaffi og eftirréttanefnd) buðu heim í mat. Arnar og Íris Björk (aðalréttanefnd) voru hress að vanda og við mættum þrjú (meðlætisnefnd) kampakát. Fengum frábæran mat og enduðum á að ferja sofandi Sigurð heim löngu eftir venjulegan háttatíma. Hann hefði eflaust verið til í að sofa bara áfram í rúminu þeirra Hörpu og Rósu en þar fór víst vel um drenginn að eigin sögn.

Föstudagur 6. apríl 2012

Maggi, Sigurður og Arnar hittust á Johan & Nyström þar sem Unnur og Íris voru heima við að læra, og þurftu því næði. Drengirnir ræddu þetta erfiða ástand yfir frábæru kaffi og ótrúlega góðum súkkulaðibitum.

Sigurði dagsins fannst fáránlegt að fara út fyrst mamma væri loksins heima.

Sigurði dagsins fannst fáránlegt að fara út fyrst mamma væri loksins heima.

Þriðjudagur 3. apríl 2012

Í dag var síðari leikur Barcelona og AC Milan, og því blásið til strákahittings. Arnar, Maggi og Jón Andreas (nýbakaður faðir) hittust yfir hamborgara og fótbolta. Unnur og Sigurður vildu meina að þeim hefði ekki leiðst á meðan, sem ég á erfitt með að trúa.

Mánudagur 2. apríl 2012

Í dag vöknuðum við með kuldahroll og litum út um gluggann. Þar var snæviþakin jörð, okkur til mikillar skelfingar. Ákváðum að gera það besta úr því og fara í snjóróló.

Siggi í snjóróló.

Siggi í snjóróló.

Sunnudagur 1. apríl 2012

Arnar og Íris buðu fjölskyldueiningunni í brunch í dag, sérdeilis prýðilegt. Enduðum á því að setjast hálfpartinn að hjá þeim og vorum búin að vera í hátt á fimmta klukkutímann (Unnur var farin að skipuleggja hilluplás sem við þyrftum) áður en haldið var heim á leið. Sigurður var í skýjunum með ferskan banana, jarðaber og ananas!

Húshaninn, súkkulaðiterta og pönnukökusírop.

Húshaninn, súkkulaðiterta og pönnukökusírop.

Laugardagur 31. mars 2012

Í dag opnar Lill-Skansen aftur eftir miklar framkvæmdir og höfum við Siggi ákveðnar áhyggjur af því að Unnur muni koma til með að “skreppa út að kaupa mjólk” og ekki sjást aftur fyrr en eftir 2-3 vikur. Þá mögulega með lítinn kettling sem hún hefur náð að lauma inn á sig.