Miðvikudagur 28. mars 2012

Maggi var gerður útlægur af heimilinu í dag þegar í ljós kom að fótboltaleikur dagsins (Barcelon – AC Milan) var ekki í boði á þeim stöðvum sem við höfum aðgang að. Var því tekið til þeirra ráða að blása til sportbarshittings með Arnari, sem tók vel í þau plön. Brynjar Smári kom með og voru það því þrír herramenn sem skemmtu sér saman yfir látunum í innfæddum – en þeir klöppuðu og hóuðu mikið í hvert einasta skipti sem hetjan Zlatan Ibrahimović kom nálægt boltanum. Liðin skildu jöfn þar sem hvorugt kom boltanum í netið, verður spennandi að sjá hvernig næsti leikur fer. Þetta verður mögulega notað sem afsökun fyrir strákahitting í framtíðinni.

Mánudagur 26. mars 2012

Í gær gleymdist: Siggi fékk fjórðu tönnina! (Og fer þá kannski að sofa aftur á næturnar, plísplísplís.) Í dag lærði ég á kaffihúsi, þangað sem Maggi og Siggi kíkja stundum í heimsókn og dást að fallega veggfóðrinu.

Siggi, ekki að sýna ykkur nýju tönnina

Siggi, ekki að sýna ykkur nýju tönnina

Sunnudagur 25. mars 2012

Í dag var Vöffludagur haldinn hátíðlegur í Svíþjóð. Það hefðum við ekki vitað hefðu Begga og Ingó ekki boðið okkur í dýrindis vöfflukaffi. Við vorum hinsvegar svo upptekin við að háma í okkur vöfflur að myndavélin gleymdist í töskunni sinni.

Bangsi + tvöfalt límband = kortér sem Unnur var alls ekki að skrifa ritgerð

Bangsi + tvöfalt límband = kortér sem Unnur var alls ekki að skrifa ritgerð

Föstudagur 23. mars 2012

Sigurður hlaut 8 mánaða skoðun í dag og var orðinn 9.47 kg þungur og 72 cm langur! Var í tvígang lýst sem fullkomnu eintaki og því var haldið fram að önnur börn ættu að vera eins og hann. Okkur þykir vænt um sænska heilbrigðiskerfið.